Sunday, January 31, 2010

Eins dauði er annars brauð


Utah Jazz-Sacramento Kings
Föstudaginn 29. janúar

Dauði: Carlos Boozer (og Deron Williams) meiddur hjá Jazz.

Annars Brauð: Paul Millsap kemur inn í hans stað og skilar 32 stigum, 14 fráköstum og 7 stoðsendingum í sigurleik.

Memphis Grizzlies-New Orleans Hornets
Laugardaginn 30. janúar

Dauði: Chris Paul meiddur

Annars Brauð: Darren Collison kemur inn í hans stað og skilar 17 stigum, 18 stoðsendingum og 6 fráköstum í sigri New Orleans í framlengingu.

Collison sló nýliðamet Chris Paul (16) hjá Hornets í stoðsendingum. Memphis hafði ekki tapað heima síðan 4. des gegn Boston.

Tískuhornið: LeSteinríkur


 

Saturday, January 30, 2010

Friday, January 29, 2010

Þetta eru Al-Stjörnurnar 2010


Eins og fram hefur komið liggur nú endanlega fyrir hvaða leikmenn verða fulltrúar austurs og vesturs í Stjörnuleiknum. Nokkrar deilur hafa verið um valið að þessu sinni og til að mynda hnakkrifust þeir Kenny Smith, Chris Webber og Charles Barkley um málið á TNT í gær.

Við erum svo löt og áhugalaus að við nennum ekki að rífast um það hvort David Lee og Chauncey Billups áttu að komast í stjörnuleikinn eða ekki - og hvort það sé eðlilegt að 20/10 menn í vestrinu sitji heima í sófa og borði 1944 rétti meðan Al Horford spilar í stjörnuleik. Við látum ykkur það eftir.

Það verður hinn síkáti George Karl hjá Denver sem þjálfar lið Vesturdeildarinnar. Phil Jackson er með betri árangur með Lakers en þjálfaði vesturliðið í fyrra og kemur því ekki til greina.

Enn á eftir að koma í ljós hver sér um austurliðið. Mike Brown þjálfari Cleveland kemur ekki til greina þar sem hann var með austurliðið í fyrra, en þeir Stan Van Gundy, Doc Rivers og Mike "Væri þér sama þó ég geymdi augabrúnirnar á mér í öskubakkanum hjá þér" Woodson eru nánast hnífjafnir með lið sín í töflunni.

Hér fyrir neðan eru stjörnuliðin í heild sinni:

 

Úrvals prógramm í imbanum næstu daga


Ef þú, lesandi góður, hefur ekki tök á því að vera með NBA TV af pólitískum, efnahagslegum eða landfræðilegum ástæðum, biðjumst við afsökunar á því að núa þér um nasir með eftirfarandi.

Hafir þú hinsvegar tök á því að sjá dagskrá stöðvarinnar, skorum við á þig að kíkja á leikina sem í boði eru í kvöld og næstu daga. Hér eru á ferðinni mjög áhugaverðar viðureignir.

Raunar er aðeins einn leikur á dagskrá stöðvarinnar næstu vikuna sem lítið er varið í. Hinir eru allir annað hvort þýðingarmiklir eða hafa alla burði til að verða hrikalega skemmtilegir.

Allt byrjar þetta í nótt klukkan hálf eitt þegar Boston sækir Atlanta heim.

Fös    29-Jan     Atlanta-Boston  00:30
Lau    30-Jan     Memphis-New Orleans 01:00
Sun    31-Jan     Houston-Phoenix  00:00
Mán     1-Feb    Memphis-LA Lakers  01:00
Þri     2-Feb      Oklahoma-Atlanta  01:00
Mið     3-Feb    Utah-Portland  03:30
Fri     5-Feb      New York-Milwaukee00:30
Lau     6-Feb    Utah-Denver  02:00

Barkley segir að Howard kunni ekki að spila körfubolta




Það er gott að vita að við erum ekki ein um að láta Dwight Howard fara í taugarnar á okkur. Spólaðu fram í 8:40 í myndbandinu hérna fyrir ofan og sjáðu Charles Barkley benda á þá einföldu staðreynd að Howard kann ekki undirstöðuatriðin í stórkallasóknarleik.

Dirk Nowitzki kann þetta reyndar ekki heldur, en Dirk er besta sjö feta háa skyttan í sögu NBA, svo það skiptir minna máli fyrir hann.

Eftir að hafa skoðað það betur, kemur í ljós að það er hægt að kenna Kevin Garnett alfarið um tap Boston gegn Orlando í gær. Hvað var KG að gera þarna í lokin þegar Lewis keyrði fram hjá honum?

Fyrir þennan leik hafði Boston 86 sinnum farið með 10+ stiga forskot inn í fjórða leikhluta síðan Garnett og Ray Allen komu til liðsins - og unnið sigur í öllum þessum leikjum. Þeirri rispu lauk sem sagt í gær, enda var liðið 11 stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta og mest 16 yfir áður en Orlando tók völdin á vellinum.

Phoenix var búið að tapa 18 leikjum í röð í beinni útsendingu á TNT áður en liðinu tókst að merja sigur á Dallas í nótt.

Einn frá Charles Barkley í lokin: "Hvað kallarðu kraftframherja sem hirðir ekki 10 fráköst að meðaltali í leik? Lítinn framherja."

Stutt skilaboð


 

Orlando þarf að spila körfubolta


Í nótt vorum við alvarlega að hugsa um að tæta Orlando-liðið í okkur eins og soltnar hýenur. Hættum við það eftir að Magic stal sigrinum af Boston á síðustu stundu.

Það er erfitt að koma auga á það, en það bara vantar eitthvað í þetta Orlando-lið. Svona til að það verði alvöru og fari jafnvel aftur í úrslitin. Tveir sigrar í þremur leikjum gegn Boston í vetur breyta engu um það.

Kannski vantar Orlando bara tyrkneskan framherja sem spilar eins og leikstjórnandi.

Kannski vantar liðið miðherja sem er grimmari en leikskólastelpa með þrjár nýjar Barbie-dúkkur.

Og kannski vantar liðið ekki ofmetinn skotbakvörð með hjarta á stærð við usb lykil.

Og Boston? Það liggur ekkert á að skrifa skýrslu um þá grænu.
Boston er búið að sýna og sanna allt sem við þurfum að sjá. Nema hvort það getur haldið heilsu fram á vorið og mætt heilt í slaginn í úrslitakeppninni. Og um það getum við ekki dæmt fyrr en lóan verður á kantinum.

Þangað til skulum við bara njóta þess að horfa á Rajon Rondo vaxa og Rasheed Wallace eyða ósonlaginu með langskotum og tæknivillum.

Thursday, January 28, 2010

Tuggur


Í nótt verður tilkynnt formlega hvaða leikmenn voru valdir sem varamenn í stjörnuleikinn í næsta mánuði. Af hverju að bíða, þegar þú getur séð það hér.


*Um leið og við slepptum pennanum eftir að hafa drullað yfir San Antonio, átti liðið einn sinn besta leik á tímabilinu og valtaði yfir Atlanta. Fyrirsjáanlegt. Tim Duncan með 27 fráköst og allt. En auðvitað meiddist Tony Parker á sama auma ökklanum til að sverta gott kvöld fyrir kúrekunum.


*Chicago er allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð í þriðja sinn á stuttum tíma. Og allir sigrarnir á útivelli. Phoenix, Houston, San Antonio og nú síðast Oklahoma. Á íslensku kallast það helvíti góður árangur. Furðulegt að liðið hafi samt tapað útileikjunum tveimur þar á undan gegn Golden State og Clippers. Dæmigert fyrir svona jójó lið.


*Denver er búið að vinna átta leiki í röð. Á íslensku kallast það "við erum næstbesta liðið í Vesturdeildinni og ef þú hefur eitthvað við það að athuga látum við húðflúrarann hans J.R. Smith sækja börnin þín á leikskólann á morgun."


*Clippers-liðið lét New Jersey drulla yfir sig í gær og stöðva 11 leikja taphrinu. New Jersey myndi tapa fyrir Mostra á góðum degi og þó öll lið geti átt sína slæmu daga - þá tapar maður ekki fyrir New Jersey. Það er betra ástand í íslenskum stjórnmálum en á LA Clippers. Stuðningsmönnum þessarar höltu heróínánetjuðu vændiskonu af liði væri hollast að binda enda á líf sitt, svo sorglegur er þessi guðsvolaði klúbbur.

Símaleikurinn




Wednesday, January 27, 2010

Yfirlýsingar tengdar iljarfellsbólgu


Hvar sem við komum, hópast að okkur fólk sem öskrar í áttina til okkar sömu spurningunni.

Hvað er að San Antonio liðinu?

Það er ekki skrítið að fólk sé að spyrja. Reyndar er ekki eins og San Antonio sé í einhverri botnbaráttu. Mörg lið í deildinni væru eflaust fegin að vera með 25 sigra og 18 töp það sem af er í vetur, en við erum jú að tala um San Antonio - ekki Minnesota.

Spurs var teiknað upp sem sofandi risi í Vesturdeildinni í haust. Liðið fékk m.a. til sín Richard Jefferson og Antonio McDyess, fékk flottan nýliða og var með unga gutta í sínum röðum sem áttu að hjálpa þeim Duncan, Parker og Ginobili að eiga séns á einum titli í viðbót.

En af hverju hefur San Antonio þá tapað fimm af síðustu sex leikjum?
Af hverju hefur liðið tapað þremur heimaleikjum í röð í fyrsta sinn í tíð Tim Duncan?
Og af hverju hefur liðinu verið sópað í fyrsta sinn í fjögurra leikja seríu í deildakeppninni síðan Duncan kom inn í deildina?

Gæti það verið af því að:

*Tony Parker er að spila með iljarfellsbólgu og það er ástæðan fyrir því að hann hefur ekki verið líkur sjálfum sér í vetur. Ef þú ert að spá í hvað iljarfellsbólga er, nægir að spóla aftur til ársins 2006 og spyrja af hverju San Antonio vann ekki titilinn það ár. Það var af því Tim Duncan þjáðist af þessu leiðindafyrirbæri.


*Manu Ginobili er enn ekki 100% heill eftir langvarandi ökklameiðsli og það er alls ekki víst að við fáum að sjá Manu ná fyrri styrk. San Antonio vinnur ekki titil án hans. Það er bara svo einfalt.



*Richard Jefferson er með tvo tankbíla frá Hreinsitækni í eftirdragi alla daga til að þrífa upp eftir sig skituna sem hefur dreift um götur San Antonio. Eins og allir héldu að þessi maður ætti eftir að smella inn í liðið, er hann enn úti á þekju og skugginn af þeim manni sem hann var hér fyrir nokkrum árum.


*Varnarleikur liðsins er helmingi lakari en hann var fyrir þremur árum. Nú er enginn Bruce Bowen og Tim Duncan getur ekki spilað eins og hann sé 21 árs endalaust (Þó hann sé reyndar næstum því að gera það).



Þessir punktar hér fyrir ofan fara langt með að útskýra vandræðin á San Antonio, en þó ekki alveg. Það getur nefnilega vel verið að San Antonio sé bara brunnið yfir á tíma. Kjarninn í liðinu sé bara barinn og saddur og búinn með kvótann. San Antonio hefur verið svo ógnarsterkt og stöðugt lið síðasta áratuginn að enginn hefur þorað að veðja á móti því.

Við ætlum ekki að dæma liðið úr leik alveg strax, en ætlum samt að mála okkur aðeins út í horn hérna - bara svona fyrir ykkur.

Spurs-liðið fer nú brátt í hina árlegu Ródeó-keppnisferð þar sem það spilar átta útileiki í röð dagana 3.-21. febrúar. Þetta hefur oftar en ekki verið tímapunkturinn sem liðið smellur saman og setur í fluggírinn fyrir vorið.

Við tökum stöðuna hjá Spurs sem sagt þann 21. febrúar og ef keppnisferðalagið tekst illa, ætlum við að gera okkur lítið fyrir og dæma Spurs úr leik sem topplið í NBA í eitt skipti fyrir öll með þennan mannskap.

Það yrðu góð tíðindi fyrir Lakers-menn ef svo væri, því að okkar mati er San Antonio (á fullum styrk) eina liðið í Vesturdeildinni sem gæti mögulega aftrað því að Lakers fari auðveldlega í lokaúrslitin þriðja árið í röð. Sorry, stuðningsmenn Dallas og Denver. Þannig er það bara.

Greg Oden finnst gaman að taka myndir af... hlutum.


Á Íslandi, og reyndar víðar, er til siðs að þegja bara og bíða það af sér þegar menn drulla upp á bak.

Það gera bæði stjórnmálamenn og íþróttamenn. Og við gerum þeim yfirleitt þann greiða að gleyma því bara með þeim. Borgar sig ekki að velta sér upp úr fortíðarskandölum og leiðindum.

Við vonum að svo verði með aumingja Greg Oden, sem í kvöld viðurkenndi, harmaði og baðst afsökunar á því að nektarmyndir af honum væru nú komnar út um allt á netinu. Myndirnar sendi hann fyrrum kærustunni sinni í síma fyrir 1-2 árum síðan. Gott múv.

Líklega hefði Oden átt að þegja bara yfir þessu og láta storminn líða hjá. Það gera flestir íþróttamenn þegar svona kemur upp. Nú eða neita þessu. Það er hægt að gera eitt og annað í Photoshop eins og lesendur þessarar síðu hafa eflaust tekið eftir (takk fyrir, takk). En ekki Oden. Hann játaði allt og sagði sorry. Búið mál? Kemur í ljós.

Nú eru eflaust flestir að hugsa með sér; og hvað? Hvar eru þessar myndir? Af hverju eru þær ekki hérna á síðunni?

Við höfum umræddar myndir undir höndum, en getum ekki birt þær óritskoðaðar. Lesendur okkar eru margir hverjir í yngri kantinum og með auðsærða blygðunarkennd.

Það eina sem við höfum um myndirnar að segja er að með þeim gerir Oden ekkert til að eyða steglingsmyndum um stærðarhlutföll ákveðinna líkamshluta Afríkuættaðra Bandaríkjamanna.

Skjóttu, gamli svíngur, skjóttu!


Við vorum að velta því fyrir okkur í færslu hér fyrir nokkrum dögum að leikstjórnandinn Chris Duhon hjá New York væri í smá (hóst) óstuði þessa dagana.

Við lofum ekki að minnast ekki á það aftur í góðan tíma, en það er bara ekki hægt að horfa fram hjá því hvað maðurinn er að eyða ósonlaginu með skotnýtingu sinni!

Hversu slæm skytta er Duhon, spyrðu?

Jæja, síðan 10. janúar hefur hann hitt úr sex af 43 skotum sínum utan af velli. Það er um það bil 14% skotnýting. Og það er ekki það besta.

Á þessum rúma hálfa mánuði hefur Duhon tekið tuttugu og átta þriggja stiga skot og hitt úr.... wait for it.... einu! Hann er búinn að klikka á tuttugu síðustu langskotum sínum þegar þetta er skrifað.

Og rúsínan í afturendanum...

Duhon (33,7%) er með betri þriggja stiga nýtingu en Kobe Bryant (31,3%) í vetur.
Aðeins færri sigurkörfur reyndar...

Tuesday, January 26, 2010

NBA Ísland ku gera lífið skemmtilegra


Lesendum NBA Ísland fjölgar nú sem aldrei fyrr og fólk duglegt við að senda okkur tölvupósta með góðum anda. Sumir sem skrifa okkur segjast ekki einu sinni setjast niður og horfa á Strákana Okkar fyrr en þeir hafa lesið dagsskammtinn sinn á NBA Ísland. Það þarf vart að taka fram að þetta gleður okkur hérna á ritstjórninni mikið.

Við skorum á nýjustu lesendur að fletta síðunni okkar aftur í tímann og skoða það sem á undan er gengið. Hér hefur margt skemmtilegt verið brallað frá í lok nóvember og ef þið skoðið það, eigið þið líklega auðveldara með að komast inn í andann sem hér ríkir.

Það er kannski ekki langt síðan þessi síða fór í loftið, en þó svo langt að fólk var til dæmis ekki lamið ef það sagði essasú og Ron Artest var að tala um að fá sér koníak í hálfleik. Það er því um að gera að spóla aðeins til baka og skoða gamla stöffið.

Svo er NBA Ísland að sjálfssögðu með síðu á Facebook eins og öll önnur góð fyrirtæki. Þú getur skoðað hana hér og skráð þig í hóp ánægðra lesenda ef þú hefur áhuga. Svo getur þú sent okkur línu með því að smella á hlekkinn "hafa samband" til hægri á síðunni. Þar er einnig að finna dagskránna á nbatv sjónvarpsstöðinni.

Lakers í Hvíta Húsinu




Monday, January 25, 2010

Ef við erum ekki að skrifa mikið...


... er það vegna þess að það er ekki hægt að hætta að spila þennan fjárans leik. Ekki segja að við höfum ekki reynt að vara ykkur við! Ekki. Spila. Þennan. Leik!


EHF




Sunday, January 24, 2010

Chris Duhon hittir illa ofan í körfuhringinn


New York er búið að tapa sex af síðustu átta leikjum sínum. Tapaði með fimmtíu stigum fyrir Kidd-lausu Dallas á heimavelli í kvöld. Þú tapar ekki með fimmtíu stigum á heimavelli! Undir neinum kringumstæðum! Þú veist, EVER!

New York er mögulega með slakasta byrjunarleikstjórnanda í NBA deildinni. Við elskum Chris Duhon, í alvöru, en hann er og hefur alltaf verið varaleikstjórnandi. Ætli Mike D´Antoni sakni nokkuð Steve Nash?

Duhon þarf að hafa samband við Papco og Hreinsitækni varðandi óstuðið sitt þessa dagana. Skoðaðu sjö síðustu leiki hjá honum. Ekki gott, krakkar. Ekki gott.


LeBron James treystir félögum sínum til að spila körfubolta


Gaman að sjá LeBron James og Kevin Durant læsa hornum í gær. James spilaði stóra rullu í lokin eins og venjulega og stal senunni með fallegri blokkeringu í krönsinu. Eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan fékk Cleveland líka hetjuskap úr óvæntri átt þegar Daniel Gibson lagði grunninn að sigrinum með stórum þrist undir lokin.

Það er ekki dónalegt að eiga þriðja leikstjórnanda sem setur niður svona skot. Gibson hafði ekki verið í byrjunarliðinu hjá Cleveland síðan árið 2007, en takið eftir því hvað LeBron hikar ekki við að senda á hann á ögurstundu. Það finnst okkur segja mikið um James - að hann skuli treysta þessum manni fyrir þessu skoti á þessum tímapunkti. Spurning hvort Kobe Bryant hefði t.d. treyst Adam Morrison í sömu stöðu.

Stephon Marbury spilar körfubolta í Asíu




Saturday, January 23, 2010

Bleiknefur var ekki lengi í Paradís


Eitthvað virðist Derrick Rose hjá Chicago hafa verið ósáttur við síðustu færslu okkar, þar sem við montuðum okkur af því að hvíti maðurinn hefði fengið að koma upp úr nördakjallaranum í smá stund. Ósáttur, svona eins og með því að setja aumingja Goran Dragic hjá Phoenix á veggspjald í beinni á NBA TV í nótt. Þetta er keppnis. Drengurinn getur lyft sér!

Friday, January 22, 2010

Stór dagur fyrir bleiknefja


Hvíti kynstofninn vann menningarlegan sigur í nótt þegar einn svalasti blökkumaður veraldar sprengdi rímur eftir hvítan dreng með aflitað hár þegar hann var að gíra sig upp fyrir lokamínúturnar í leik Cleveland og LA Lakers.

Með þessu er ljóst að hvíti maðurinn getur bæði búið til svalt rapp (Eminem) og troðið (Woody Harrelson)! Hér erum við að tala um stór skref fyrir bleiknefja í átt að menningarlegu jafnrétti. Horfið endilega á þennan sögulega viðburð í myndbandinu hér fyrir neðan.

Lífið eftir NBA: Rolando Blackman




Af LeBron James og Kobe Bryant


LeBron James var með bæði hendur og fætur á jörðinni í viðtölum eftir að Cleveland liðið hans lagði LA Lakers í hörkuleik nótt og hefur þar með unnið báðar viðureignir liðanna í vetur.

Það var sniðugt hjá James að halda sér á jörðinni. Það segir okkur að hann sé ekki búinn að gleyma því hvað lið hans gerði í brækurnar í úrslitakeppninni síðasta vor.

Líklega hafa flest ykkar misst af því þegar við sögðum ykkur kaldranalega að LeBron James væri besti körfuboltamaður heims hérna á hveitibrauðsdögum þessa vefsvæðis.

Eins og fram kemur þarna í færslunni skuldum við líklega langan pistil til að rökstyðja þessar yfirlýsingar - og hann á eflaust eftir að koma einn daginn.

Það gladdi okkur því mikið þegar Bill Simmons tók undir þessa skoðun okkar í þessum pistli sínum. Sérstaklega þessi partur hér:

"Know this: The Kobe-LeBron argument is dead. It's over. 
LeBron James is the best basketball player alive."

Kobe var besti leikmaður deildarinnar í nokkur ár. En þá talaði enginn um það nema við. Núna er Lakers búið að vinna titil og þá er mátulega byrjað að tala um Kobe sem besta leikmann heims, þegar hann er það ekki lengur. Þrátt fyrir allar þessar flautukörfur og allt það. Nei, lömbin mín. Það er LeBron sem á sviðið í dag og eitthvað segir okkur að hann sé ekkert á leiðinni af því á næstunni.

Það er æðislegt að rífast um þetta. Þú veist að þú ert með gott argúment þegar þú getur verið að rífast við sjálfan þig um það meðan þorri landsmanna er í fastasvefni, dreymandi lélega handboltadómgæslu og IceSave.

Atkvæðatalningu er lokið í NBA Ædolinu























Þá er búið að tilkynna byrjunarlið austur- og vesturstrandar í stjörnuleiknum í næsta mánuði. Fátt sem kemur á óvart þar.  Allen Iverson er óboðinn gestur í byrjunarliðinu en það er alls ekkert víst að hann taki þátt í leiknum vegna meiðsla. Kannski tekur hann tíu mínútna kameó og kallar það gott. Líklegra er að einhver annar taki sæti hans.

Það eru vissulega skiptar skoðanir á vinsældakosningunni sem valið á byrjunarliðunum er, en það eru víst aðdáendurnir sem ráða þessu og ef þeir eru nógu vitlausir til að halda að það sé skemmtilegt að horfa á Allen Iverson spila leikstjórnanda í stjörnuleik - nú þá þeir um það. Okkur þykir alltaf vænt um að gömlu mönnunum sé sýnd virðing, en allt er kannski gott í hófi.

Það sem kom okkur alls ekki á óvart, var sú "dularfulla" staðreynd að vinsældir Tracy McGrady "dvínuðu skyndilega gríðarlega" og því er Steve Nash réttilega kominn á sinn stað í byrjunarliðið. Skrítið að Stern og félagar hafi ekki klárað að leiðrétta málið og kippa Iverson út.

Það er kannski til marks um miklar vinsældir Iverson að hann var langt á undan næsta bakverði í öðru sætinu yfir flest atkvæði í austrinu - þar sem í raun er ekki úr miklu að moða - nema þér finnist gaman að sjá Vince Carter taka stökkskot.

Svo er reyndar rosalega fyndið að sjá atkvæðin hjá bakvörðunum í vestrinu þar sem Aaron Brooks litli hjá Houston fær fleiri atkvæði en Jason Kidd, Tony Parker, Chauncey Billups, Brandon Roy og svo auðvitað Deron Williams - sem kemst ekki á lista frekar en venjulega. Sannarlega ekkert að því að spila í stórri borg eins og Houston, sem í ofanálag er með hálfa kínversku þjóðina lemjandi á lyklaborðið.

Afsakið þetta tuð í okkur. Kosningin í byrjunarlið stjörnuleiksins er ekki uppáhalds dagskrárliður okkar á árinu, það er ljóst. Við sleppum því þá að fjalla um hann á næsta ári...

Wednesday, January 20, 2010

Meira af Tony og Evu




Meira af launamálum


Hérna er yfirlit yfir launahæstu leikmenn NBA deildarinnar og skoðanir harðbrjósta ritstjórnar NBA Ísland þar á. Við áttuðum okkur á því þegar við vorum búin að teikna þetta upp, að stundum segja myndir í raun og veru meira en þúsund orð.

Það er líka dásamlegt að geta slengt einhverju svona fram í blindum hroka og yfirlæti - án allrar ábyrgðar eða rökstuðnings. Aaaah. Nú líður okkur eins og fólkinu sem skilur eftir gremjublandnar athugasemdir á moggablogginu og eyjunni þegar því líður illa inni í sér.

Ef þessi listi er skoðaður aðeins betur kemur í ljós að minnst 17 af 30 launahæstu leikmönnum deildarinnar eru á of háum launum.

Þessi of háu laun eru svo flokkuð frá því að vera of há (Allen, Lewis, Stoudemire osfv), fáránlega há (Shaq og Yao) upp í  Jesús, María og Jósep, af hverju er maðurinn sem gerði þennan samning ekki í grjótinu? -samninga frá helvíti (McGrady, Jermaine O´Neal, Michael Redd osfv.)

Að lokum eru svo menn sem eru í raun og veru að vinna fyrir kaupinu sínu og ættu sannarlega að vera ofar á þessum lista af því þeir eru einfaldlega í hóp allra bestu leikmanna heims. ( LeBron, Wade osfv).

Jú, svo eru reyndar nokkur nöfn þarna sem eru ólituð. Kobe og Duncan ráða laununum sínum sjálfir af því þeir unnu flesta titla sem í boði voru á síðasta áratug, Dirk af því hann er með svo geggjað hár og Pierce af því hann er einn af þremur vanmetnustu leikmönnum deildarinnar osfv.

Takið eftir að Dwight Howard, sem hefur verið með skotskífu í grillinu hjá okkur í allan vetur, sleppur við rauða litinn í þessari samantekt. Það þykir okkur dálítið merkilegt. Kannski til marks um að fyrirbærið miðherji er svo nálægt því að heyra sögunni til.

Lesendum fjölgar hratt á NBA Ísland

























Orðstír þessa vefsvæðis breiðist hratt út og þó við séum ekki beinlínis hissa á því, höfum við gaman af því. Í dag bættist heimasíða körfuknattleikssambandsins í hóp miðla sem vakið hafa athygli á skrifum okkar.

Áður höfðu karfan.is og vísir.is sagt frá því hvað NBA Ísland væri stórkostlegt vefsvæði.  Við erum alltaf að bíða eftir því að mogginn.is og ríkisútvarpallralandsmanna hafi samband.

Þá er rétt að geta þess að við erum enn mjög upp með okkur yfir öllum tölvubréfunum sem okkur hafa borist frá því síðan tók flugið í byrjun desember og þar til nú, þegar flettingar skipta tugþúsundum.

Fólk hefur verið ákaflega duglegt að skrifa okkur frá ótrúlegustu stöðum og lýsa yfir ánægju sinni með verk okkar. Þetta kunnum við að meta. Haldið endilega áfram að fylgjast með og láta í ykkur heyra. Kærar þakkir.

Tuesday, January 19, 2010

Beinar útsendingar á NBA TV og Stöð 2 Sport



Hér fyrir neðan gefur að líta lista yfir beinar útsendingar á Stöð 2 Sport og NBA TV sjónvarpsrásinni á Digital Ísland. NBA TV má líka sjá eftir að hefðbundinni kvölddagskrá lýkur á Stöð 2 Sport í vetur.

Leiktímar eru gefnir upp á íslenskum tíma og án ábyrgðar. NBA TV á til að skipta um leiki með litlum fyrirvara af ýmsum ástæðum - ekki síst í úrslitakeppni.

NBA TV pakkinn sem sýndur er á Íslandi er það sem kallast NBA TV International. Gætið þess að rugla því ekki saman við NBA TV leiki sem auglýstir eru á körfuboltasíðum í Bandaríkjunum. Það er allt annar pakki.

NBA TV sýnir oftar en ekki "out of market" leiki, eða "minni" leiki. Þetta þýðir að þú getur síður átt von á að sjá stórleiki í beinni útsendingu á rásinni - það kemur í hlut stærri stöðva eins og ESPN og TNT sem sýna gjarnan slíka leiki á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum. Stöð 2 sport sýnir af og til frá þessum "stærri" leikjum.

Hafir þú spurningar þessu tengt er þér velkomið að hafa samband á nbaisland@gmail.com og við munum gera okkar besta til að svara fyrirspurnum þínum.

Október á NBATV 




Og nú að allt öðru




Tuggur


Það er alltaf gaman að lesa mola og því við ákváðum að deila með ykkur nokkrum tuggum sem ráku á fjörur okkar af erlendum miðlum eftir helgina.

* LA Lakers er með 21 sigur og aðeins 3 töp þegar Pau Gasol er í liðinu. 11 sigra og 6 töp án hans.

* Orlando byrjaði leiktíðina 17-4 en er 9-11 síðan.


* Steve Nash er að skora 18,7 stig að meðaltali í leik. Metið hans á ferlinum er 18,8 stig (2006) og því er ekki útilokað að hann verði fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að toppa í stigameðaltali á ferlinum eftir 35. afmælisdag sinn.



* Memphis hefur unnið 16 leiki og tapað 6 síðan 1. desember. Það er þriðji besti árangurinn í deildinni á þessu tímaskeiði. Aðeins Cleveland og Lakers (19-6) eru með betri árangur síðan á fullveldisdaginn.

* Charlotte Bobcats er með sjö sigra og eitt tap á árinu 2010.

* Miami hefur aldrei dottið niður fyrir 50% vinningshlutfall í vetur. Nafnið er Wade. Dwyane Wade.

* New Orleans er 18-13 síðan Byron Scott var rekinn. Chris Paul missti úr átta af þessum leikjum.

*Chicago er tvisvar búið að vinna fjóra í röð og hefur lagt bæði Boston og Orlando síðan Vinny Del Negro var ekki rekinn eftir skituna gegn Sacramento forðum.

* Golden State vonast til að koma hinum skotglaða Monta Ellis í stjörnuleikinn í næsta mánuði. Það er ekki von, því Warriors átti síðast mann í stjörnuleiknum árið 1997. Já, það var Latrell Sprewell.

* New Jersey Nets er búið að vinna þrjá leiki og tapa 37. Það er nákvæmlega sami árangur og lélegasta lið sögunnar var með á sama tímapunkti. Lið Philadelphia, sem vann aðeins níu leiki veturinn 1972-73.

Té-Mákur stefnir á stjörnuleikinn


 

Monday, January 18, 2010

Sunday, January 17, 2010