Saturday, March 30, 2013

LBJ með 23 stig á innan við sex mínútum


LeBron James skoraði 36 stig þegar Miami kom sér aftur á sigurbraut með því að mala New Orleans í nótt. James var ansi fljótur í gang og skoraði meðal annars 23 stig á innan við sex mínútum. Hann var með 28 stig í fyrri hálfleik, en slakaði svo á í þeim síðari þegar ljóst var hvert stefndi.



Kapphlaupið um 8. sætið í vestrinu



Nokkrir punktar um þróun sóknarleiksins í NBA:


Körfubolti gengur út á það sama hvort sem hann er spilaður í Detroit, Darfur eða á Dalvík. Forráðamenn NBA deildarinnar hafa samt verið nokkuð duglegir að jazza í reglunum og fyrir vikið höfum við séð nokkuð miklar sveiflur í spilamennsku og stíl.

Stærsta breytingin á síðari tímum var auðvitað tilkoma þriggja stiga línunnar, en það kemur eflaust einhverjum á óvart að hún varð ekki partur af NBA fyrr en árið 1979 - nýliðaárið þeirra Larry Bird og Magic Johnson. Segja má að þarna verði þáttaskil í sögu deildarinnar. Byssurnar hjá Knicks hérna fyrir ofan eru ýkt dæmi um þróun langskota í NBA að undanförnu.

NBA deildin hefur átt margar frábærar þriggja stiga skyttur síðan á dögum Larry og Magic, en það er ekki fyrr en núna á seinni árum sem menn fara almennilega að átta sig á gildi langskota í tölfræðinni.

Það er nefnilega þannig þó að séu meiri líkur á að þú hittir úr 2ja stiga skoti en 3ja stiga skoti, eru verðlaunin fyrir þristinn auðvitað hærri og geta því haft gríðarleg áhrif á útkomuna.

Til að einfalda þetta getum við ímyndað okkur að lið A og B taki 100 skot hvort á körfuna. Lið A tekur bara tveggja stiga skot og er með 50% nýtingu. Það skorar því 100 stig.

Lið B tekur hinsvegar bara þriggja stiga skot og er því með töluvert lakari skotnýtingu en lið A, eða 40%. Það þýðir að liðið setti aðeins 40 skot niður, en af því þau voru þristar, skila þau 120 stigum í hús.

Þetta er kjánalega einföld stærðfræði, en hún hefur bara ekki verið uppi á borði í NBA deildinni fyrr en á allra síðustu árum með innrás tölfræðinördanna.

Gott dæmi um þetta er Daryl Morey, framkvæmdastjóri Houston Rockets, en hann er tölfræði- og tölvumenntaður njörður sem notar menntun sína með beinum hætti í vinnunni.
Áhrif framkvæmdastjórans endurspeglast svo í spilamennsku Rockets, því lið Houston hefur nánast útrýmt Versta Skotinu. Versta skotið - eða raunar óhagkvæmasta skotið í boltanum - er tveggja stiga skot rétt innan við þriggja stiga línu.

Þetta er svokallaður langur tvistur. Þar eru minni líkur á að þú setjir hann niður en úr skot af styttra færi og minni verðlaun en fyrir að setja þrist. Bættu svo við þetta þeirri staðreynd að þorri leikmanna í NBA deildinni er bara ekkert góður að skjóta af þessu millifæri og út að þriggja stiga línu, og við erum komin með versta skotið í körfuboltanum.

Eins og þið sjáið á töflunni hér til hliðar tekur Houston aðeins 8,8% skota sinna af millifærinu alræmda, meðan helmingur liðanna í deildinni tekur þaðan 20% skota sinna eða meira.

En ætli sé einhver fótur fyrir þessum kenningum í tölfræði?

Við skulum bara segja eins og er að NBA Ísland er ekki rétti staðurinn til að fara ítarlega ofan í tölfræði, en við höfum samt gaman af því að glugga aðeins í hana. Mjög gaman, reyndar.

Við sögðum ykkur að 15 lið í NBA tækju 20% eða meira af skotum sínum af millifærinu og út að þriggja stiga línu. Árangurinn? Aðeins fimm þessara liða færu í úrslitakeppnina ef hún byrjaði í dag.

Það er orðin staðreynd að bestu sóknarliðin - og reyndar bestu liðin yfir höfuð - nota þriggja stiga skotið sífellt meira í sínum aðgerðum. New York Knicks og Houston Rockets eru þarna í nokkrum sérflokki og taka 35% af skotum sínum fyrir utan. Þú getur séð skotglöðustu liðin fyrir utan í rauða dálknum í töflunni (sjá mynd).

Ekki eru allir sammála um áreiðanleika og skemmtanagildi þessarar auknu áherslu á langskotin í NBA, en það er ljóst að þessi skothefð er orðin miklu meira en bara blautur draumur hjá tölfræðinördum.

Líklegt má telja að þessi þróun sé komin til að vera í NBA miðað við þær reglur sem eru í gildi og mannskapinn sem þarf að fara eftir þeim. Við verðum líka að hafa það í huga þegar við skoðum þróunina sem orðið hefur í NBA á síðustu tveimur áratugum að miðherjastaðan er allt nema dauð í NBA.

Á þessum tíma fyrir sléttum tuttugu árum, vorið 1993, var Michael Jordan að gíra sig upp í að vinna þriðja titilinn í röð með Chicago Bulls áður en hann fór í hafnaboltaruglið.

Eftir það má segja að tími stóru mannanna hafi runnið aftur upp í NBA.

Auðvitað kom Jordan aftur og vann titilinn ´96-´98 en þar fyrir utan skiptust titlarnir sem í boði voru nánast eingöngu á þá Hakeem Olajuwon, Tim Duncan og Shaquille O´Neal.

Þú tekur eftir því að þetta eru allt stórir menn, tveir miðherjar og einn kraftframherji sem spilar eins og miðherji (Duncan).

Liðnir eru þeir tímar sem við vorum með menn eins og O´Neal, Ewing, Robinson og Olajuwon í deildinni - sanna stóra menn. Í dag eru ofurstjörnur NBA deildarinnar oftar en ekki innan við tveir metrar á hæð og úrval miðherja nánast ekkert.

Staðan er bara næstum því dauð.

Allt þetta miðherjaleysi breytir auðvitað gangi mála og spilamennsku í deildinni - þó það nú væri - og í staðinn fyrir miðjuhnoð og iðnaðartroð koma þrifalegir þristar. Þú ræður hvað þér finnst um það, en boltinn á eftir að finna sér leið í gegn um þetta allt saman.

Friday, March 29, 2013

Stjarnan og Snæfell áfram


Nú er ljóst að það verða Grindavík-KR og Snæfell-Stjarnan sem mætast í undanúrslitum Domino´s deildarinnar. Við vorum með fókusinn á einvígi Stjörnunnar og Keflavíkur í fyrstu umferðinni, en þetta var frábær sería.

Það var gaman að sjá hvað leikmenn Stjörnunnar voru áræðnir á lokasprettinum í leiknum í kvöld. Keflavíkurliðið var yfir nánast allan leikinn en kjarkurinn var meiri hjá heimamönnum í lokin. Stjarnan tók þetta 82-77 og vann einvígið 2-1.

Stjarnan saknaði Jovans klárlega en náði samt að loka þessu án hans. Jovan er frábær skytta og hefur séð þetta allt saman áður, en það voru ekki bara skotin og stigin sem Stjarnan saknaði. Jovan togar líka varnir andstæðinganna til með nærveru sinni einni. Hann fagnaði eins og óður maður eftir að flautað var af og var ekki öfundsverður af því að þurfa að horfa á leikinn úr stúkunni.

Það er sannarlega karakter í þessu Stjörnuliði og okkur sýnist það hafa alla burði til að fara langt í vor. Garðbæingar eru með sterkt byrjunarlið, þokkalegar skyttur, neyðarkarl og fína breidd. Við fórum fram á það hér fyrr í vetur að í raun væri ekkert annað í boði en titillinn fyrir Stjörnuna - liðið er ekkert krútt lengur og á alveg inni fyrir því að setja á sig slíkar kröfur.

Svo má ekki gleyma Endurskoðandanum í miðjunni. Menn eru að vanmeta Brian Mills, oft og mörgu sinnum í hverjum leik og fá fyrir vikið mynd af sér á veggspjald,  á youtube eða taka jafnvel slátur. Þetta er bara alvöru leikmaður, eins og 32 stigin og blokkeríngarnar hans þrjár í kvöld bera með sér.

Nú eru framundan tvö sannkölluð lúxuseinvígi. Undanúrslitin hefjast í Grindavík á annan í páskum (1.apríl) klukkan 19:15 þar sem heimamenn taka á móti KR. Þessi leikur verður einnig sýndur í beinni á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki hafa tök á að skella sér til Grindavíkur.


Thursday, March 28, 2013

Sögulegur og langþráður áfangi hjá Clippers


Það verður seint sagt að Clippers-liðið sé með ríka sigurhefð. Los Angeles útgáfan af Clippers var stofnuð árið 1984 en félagið hefur reyndar verið til frá árinu 1970. Fyrst hét það Buffalo Braves en flutti svo til San Diego og tók upp Clippers-nafnið árið 1978.

Saga liðsins hefur svo verið einn lélegur brandari þangað til nú. Í nótt tryggði sigur liðsins á Hornets að Clippers verður með yfir 50% vinningshlutfall á útivelli í fyrsta skipti í sögu félagsins. Clippers hafði ekki náð jákvæðu sigurhlutfalli á útivelli í 42 ára sögu félagsins, sem var að sjálfssögðu NBA met.

Það var Íþróttaskrifstofa Elíasar sem veitti ofangreindar upplýsingar.

Nokkur orð um sigurgöngu Miami Heat


Eins og flest ykkar vita höfum við ekki skrifað um sigurgöngu Miami Heat af því við erum orðin svo logandi hrædd við jinx-mátt okkar. Miami hefði tapað strax sama dag ef við hefðum farið að skrifa um þetta, svo við tókum þá ákvörðun að geyma skrifin þangað til tapið kæmi.

Í sjálfu sér er ekki margt um þessa sigurgöngu að segja. Miami vann fimm leikjum fleiri en Houston-liðið frá því 2008 sem á einhvern óskiljanlegan hátt vann 22 leiki í röð. Hérna getur þú skoðað samantekt yfir helstu tölfræði Miami á sigurgöngunni.

Miami er hörkugott lið og er vel að því búið að vera komið svona í metabækurnar. Það skiptir hinsvegar nákvæmlega engu máli að vera með svona fallega rispu í kladdanum ef liðið dettur úr keppni í annari umferð í úrslitakeppninni. Eigum við ekki að segja að í versta falli gefi rispan Miami aukna trú á að það geti varið titil sinn í sumar.

Til gamans fórum við aðeins ofan í saumana á sigurgöngu Miami og fengum það út að innan við helmingur sigranna kom gegn liðum sem koma til með að leika í úrslitakeppninni.

Það er auðvitað óhjákvæmilegt að lið vinni nokkra gæðasigra á 27 leikja sigurgöngu, en það verður líka að segjast að stór hluti þessara sigra kom á móti liðum sem eru í besta falli rusl. Það er ljúft að spila í Austurdeildinni.

Þrátt fyrir þetta ætlum við samt ekkert að fara að gera lítið úr sigurgöngunni hjá Miami. Hún er mjög flott og það er ekkert annað en sögulegt afrek að vinna hátt í 30 körfuboltaleiki í röð undir hvaða kringumstæðum sem er.

Eðlilega hafa nokkrir pennar farið að skoða Miami í sögulegu samhengi og bera það saman við önnur meistaralið eftir að sigurgangan varð svona löng. Við viljum nú fara varlega í það. Leikurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu árum og þó Miami sé mjög sterkt lið, hefur það líka æpandi veikleika sem mörg af bestu liðum sögunnar hefðu án efa nýtt sér til fullnustu.

Nei, þetta Miami-lið þarf að vinna fleiri titla ef við eigum að setja það á stall með bestu liðum sögunnar.

LeBron James hinsvegar...

Við höfum skrifað um James af og til í vetur en nú er hrifning okkar á þeim leikmanni orðin gjörsamlega stjórnlaus.

Við flissum eins og börn þegar við sjáum hann spila. Hann fær okkur til að gleyma öllum fordómum og fyrri reynslu. Tær snillingur og alveg einstakur körfuboltamaður.

Hann er kominn með fótinn í dyrnar að koníaksstofunni þar sem Larry, Magic og Jordan hanga, reykja vindla, drekka viskí og tala um hvað þeir voru góðir.

Hann á eftir að setjast þarna með þeim.

Það er bara tímaspursmál.

Saturday, March 23, 2013

Afmælisbörn dagsins - Kidd fertugur


Þessir fjórir heiðursmenn eiga það sameiginlegt að eiga afmæli í dag, 23. mars. Merkilegasti áfanginn er hjá honum Jason Kidd hjá New York sem er orðinn hvorki meira né minna en fertugur. Það hefði verið hægt að búa til all suddalegt lið úr þessum mannskap.

Þetta eru Gordon "Ásmundur" Hayward (uppi til vinstri), Moses Malone (uppi til hægri), Jason Kidd (niðri til vinstri) og Cleveland pilturinn Kyrie Irving. Getur þú stillt upp sterkara liði úr einum afmælisdegi? Sendu þína tillögu á nbaisland@gmail.com


Nokkrir molar um sigurgöngu Nuggets


99% þeirra sem lesa þetta vita að Miami Heat er á næstlengstu sigurgöngu í sögu NBA deildarinnar, en hún var einmitt að tikka í 25 leiki rétt áður en þetta var skrifað.

Við höfum ekkert á móti liði Miami og höfum því ekki í huga að skrifa um þessa rosalegu sigurgöngu, því þið vitið öll að hún myndi enda með það sama í einu risastóru Jinx-Digranesi.

Miami er ekki eina liðið sem er á magnaðri siglingu, því Denver hefur líka unnið þrettán leiki í röð og okkur langar að deila með ykkur nokkrum punktum um Nuggets - þó í þeirri von að við förum nú ekki að jinxa liðið í drasl.

Denver var ekki fljótasta liðið upp úr startblokkunum í haust af þeirri einföldu ástæðu að liðið átti hrikalega töflu á fyrstu vikunum, þar sem leikmenn voru á endalausum keppnisferðalögum.

Eins og við spáðum fyrir nokkru, hefur Denver rifið sig upp og verið nær ósigrandi í heimavænu prógramminu. Það þýðir þó ekki að liðið hafi ekki staðið sig vel á útivöllum, þar sem nokkrir mjög góðir sigrar hafa dottið í pokann.

Denver er með gríðarlega sterkan heimavöll. Það er ekki bara af því stemningin í Pepsi-höllinni er góð, heldur stendur Denver svo hátt yfir sjávarmáli að gestaliðunum finnast lungun vera að brenna þegar þau reyna að elta heimamenn, sem alltaf reyna að keyra upp hraðann eins mikið og hægt er.

Nuggets er þannig það lið í NBA sem skorar flest stig úr hraðaupphlaupum - tæp 20 stig að meðaltali í leik.

Nokkrir af hreinustu íþróttamönnum deildarinnar leika með Denver og það kemur sér vel í áðurnefndum aðstæðum þegar keyra á andstæðinginn í kaf.

Nægir þar að nefna þá Andre Iguodala, Dýrmennið Kenneth Faried (nr. 35), Ty Lawson, Corey Brewer og kjarneðlisfræðinginn JaVale McGee.

Það er ekki aðeins í hraðaupphlaupunum sem Denver er í sérflokki, heldur skorar liðið langflest stig allra í NBA inni í teig. Þetta er ekki síst vegna þess að liðið reynir að keyra eins og því er unnt og fær jafnan mörg stig úr hraðaupphlaupum með sniðskotum og troðslum.

Það er ekki laust við að Denver í dag minni dálítið á Suns-hraðalestina undir stjórn Steve Nash þegar það spilar svona hraðann og langskotamiðaðan sóknarleik. Það var ekki fyrr en árið 1997 sem NBA deildin fór að halda tölfræði yfir stig skoruð inni í teig og fari svo sem horfir á Denver líklega eftir að stúta því meti.

Denver skorar í dag hvorki meira né minna en 58 stig að meðaltali í leik inni í teig, sem er með ólíkindum.

Met liðsins í stigum inni í teig í stökum leik í vetur er 78 stig gegn Lakers fyrir áramótin, en til gamans má geta þess að það er einmitt Lakers sem á metið í þessum tölfræðiþætti þegar það skoraði að meðaltali rúm 54 stig inni í teig árið 1998.

Það er því ljóst að Denver er í góðri stöðu til að slá þetta met, því það hefur til dæmis rofið 60 stiga múrinn inni í teig 27 sinnum í vetur.

Hugsið ykkur bara. Liðin í NBA deildinni drita þriggja stiga skotum sem aldrei fyrr, en þó kemur nokkuð oft fyrir að þau lakari séu rétt að slefa í um 70 stigin - þetta er Denver að skora inni í teig og á þá þristana, vítin og skotin af millifærinu eftir. Magnað alveg hreint.

Þessi sigurganga Denver er ein sú lengsta í sögu félagsins. Við rákumst einhvers staðar á mola um að liðið ekki tekið svona góða rispu síðan veturinn 1969-´70 þegar það lék í ABA deildinni.

Það er þekkt stærð að Denver er ekki með eina hreinræktaða ofurstjörnu í sínum röðum og þá má segja að langskotin séu ekki sterkasta hlið liðsins. Þar með eru þó helstu veikleikar Nuggets að verða upptaldir.

Stórstjarna eða ekki, það er fullt af snillingum í Denver og George Karl þjálfari getur leyft sér þann munað að rótera 10 mönnum á fullri keyrslu án þess að liðið missi dampinn - sérstaklega á heimavelli þar sem það hefur verið nær ósigrandi í vetur (31-3).

Nuggets hefur sannarlega verið að dansa eftir áramót. Frá 20. janúar vann liðið níu leiki í röð, fór svo í erfitt ferðalag þar sem það tapaði fjórum af fimm leikjum, en rétti svo hraustlega úr kútnum þegar það komst aftur á heimavöllinn og hefur nú unnið þrettán í röð á nákvæmlega mánuði.

Denver  er búið að lauma sér upp fyrir Clippers í þriðja sætið í Vesturdeildinni og okkur sýnist að það verði fjórða liðið í NBA til að ná 50 leikja markinu í vetur. Aðeins Miami, San Antonio og Oklahoma hafa náð því til þessa.

Það verður forvitnilegt ða fylgjast með Denver í úrslitakeppninni í vor og sjá hvernig liðinu tekst að eiga við það þegar hægist á leiknum og það fær ekki að hlaupa eins mikið og í deildakeppninni.

Hver verður það sem stígur á stokk hjá Denver og tekur að sér hlutverk neyðarkarls þegar allt verður undir?

Við fáum að sjá það eftir um það bil mánuð, en það er ljóst að Denver verður ekki auðvelt lið viðureignar í úrslitakeppninni ef marka má frábært gengi þess gegn hinum toppliðunum í Vesturdeildinni.

Á efstu myndinni í þessari færslu má sjá árangur Denver gegn hinum sjö liðunum sem útlit er fyrir að nái inn í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni og hann er ekkert slor eins og þið sjáið.

Lakers-liðið er að finna sig betur og betur og mun líklega halda dampi á þessum síðasta mánuði deildakeppninnar þar sem það fer vonandi að endurheimta mannskapinn af meiðslalistanum.

Í fyrsta skiptið í langan tíma er Dallas aðeina að ranka við sér og hefur unnið sjö af síðustu tíu leikjum sínum.

Miði er möguleiki fyrir Dallas, en til þess þarf Lakers að byrja aftur að drulla á sig og við sjáum það ekki gerast á þessum vikum sem eftir eru.

Utah er jú þara á vappinu en getur ekki keypt sigur og er úr leik í kapphlaupinu eins og við sögðum ykkur um daginn.

Vonandi höfðuð þið gaman af þessum molum um hið fríska og skemmtilega Denver-lið. Við mælum eindregið með því að fólk taki spjaldtölvuna bara með á kamarinn og gluggi þar í þetta í ró og næði.

P.s. - Um leið er ekki úr vegi að minna á sjónvarpsleikina sem framundan eru á Stöð 2 Sport um páskana. Sannkallaðir hörkuleikir þar á ferð. Hugsið ykkur bara ef  Miami héldi nú bara áfram að vinna og við fengjum að sjá eitthvað sögulegt í beinni!

Chicago-Miami Miðvikudagur 27. Mars 00:00 (skírdagur)
San Antonio-Miami Sunnudagur 31. Mars kl 23:00 (páskadagur)
LA Clippers-Lakers Sunnudagur 7. Apríl 19:30

Tuesday, March 19, 2013

Hlaðvarpið: 8. þáttur























Í nýjasta þætti Hlaðvarpsins ræðir Baldur Beck við Jón Björn Ólafsson ritstjóra karfan.is. Þeir félagar spá í spilin fyrir úrslitakeppni Domino´s deildarinnar sem hefst á fimmtudaginn og segja m.a. frá því af hverju þeir byrjuðu upphaflega að raka af sér hárið.

Smelltu hér til að fara inn á hlaðvarpssíðuna og ná í þáttinn.

(Mynd: Jón Björn tekur viðtal við Kristófer Acox, leikmann KR).

P.s. - Athugið að ef Hlaðvarpið hikstar eitthvað í spilun í byrjun, er gott ráð að ýta á pásu í smá stund og leyfa spilaranum að "böffera" og hlusta svo. Annars er alltaf best að hlaða Hlaðvörpum bara beint niður og hlusta á þau þannig. Kveðja, ristjórnin.

Jason Terry tekur slátur frá LBJ



Sunday, March 17, 2013

Friday, March 15, 2013

Af snúnum ökklum


Kobe Bryant ætlar að spila með Lakers gegn Pacers í kvöld, þrátt fyrir að hafa snúið sig illa á ökkla í leik í fyrrakvöld. Auðvitað spilar maðurinn - enda eitt mesta hörkutólið í deildinni. Bjóstu við öðru?
Það þýðir ekkert að ætla að láta bólginn ökkla stöðva sig ef menn ætla að spila í NBA deildinni.

Þessir tveir hvítklæddu hérna fyrir neðan spiluðu samanlagt í 38 ár í NBA og misstu ekki úr einn einasta leik út af ökklameiðslum.

Karl Malone sneri sig stundum svo illa á ökkla að hann spilaði í öðrum skónum sem var tveimur númerum stærri en hinn. Spilaði líka meira en hálfa leiktíð handarbrotinn. Hann missti aldrei meira en tvo leiki úr tímabili á þeim átján árum sem hann spilaði með Jazz (oftast vegna leikbanns) áður en hann meiddist svo fyrst illa á lokatímabilinu með Lakers.

Stockton spilaði alla 82 deildarleikina (50 í verkbanninu um aldamótin) í 17 af 19 árum sínum í deildinni.

Þessi leikur er ekki fyrir neinar dúkkulísur.

Wednesday, March 13, 2013

Takk, Ricky


Ricky Rubio, góðvinur ritstjórnarinnar, lét sér ekki nægja að bjóða upp á glæsilega þrefalda tvennu (21/13/12) í sigri Úlfanna á San Antonio í nótt. Hann bauð líka upp á þessi brakandi fersku tilþrif.


Wednesday, March 6, 2013

Tuesday, March 5, 2013

LJ og auglýsingarnar


"Amman" sem Larry Johnson bauð upp á í Converse-auglýsingunum fyrir 20 árum sló svo sannarlega í gegn. Þetta voru líka ógeðslega flottir skór og gott ef þeir voru ekki nothæfir líka.

Mikið var Larry Johnson nú stórkostlegur leikmaður fyrstu árin í deildinni. Þvílíkur kraftur saman kominn í einum litlum stubb. En svo komu meiðslin. Hann var aldrei sami leikmaður hjá New York og hann var í Charlotte, því miður.

Við minnumst hans fyrst og fremst þegar við hugsum um hann og Alonzo Mourning í framlínu hins unga Charlotte liðs með Muggsy Bogues, Kenny Gattison, Dell Curry og fleiri góða. Johnson var langflottastur. Klikkaðir búningar líka. Topp 5 allra tíma.


D-bandið góða






































Monday, March 4, 2013

X-maðurinn


X-maðurinn, Xavier McDaniel verður fimmtugur þann 4. júní í sumar og við tökum hérna forskot á sæluna með því að birta nokkrar myndir af honum. X-maðurinn er sannarlega einn af þessum költleikmönnum níunda áratugarins og við vitum fyrir víst að hann á sér marga aðdáendur á klakanum. Sjáðu bara öll lækin...


Á góðri stundu



JR í framboði



Það var fyrir 20 árum





Gamli maðurinn hagar sér eins og unglingur



Þegar hæfileikarnir fóru suður


Árið 2009 var körfuboltafélagið Cleveland Cavaliers metið á 59 milljarða króna hjá bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes, en Miami Heat á um 45 milljarða.

Rúmum fjórum árum síðar var Cavaliers dottið niður í 54 milljarða en Heat hækkaði í tæpa 78 milljarða.

Hvað ætli hafi gerst?

Johnny Rondo


Þeir segja að foreldrar Rajon Rondo hafi verið búnir að ákveða að pilturinn fengi nafnið Johnny eða Roderick áður en þeir ákváðu að lokum að skíra hann Rajon Rondo.

Eins og Roderick er nú virðulegt nafn, hefði það sprengt alla skala ef leikstjórnandi Boston Celtics héti Johnny Rondo.

Eftir lauslega útreikninga fengum við það út að það væri fjórða svalasta Johnny nafnið þarna úti og það er nú ekkert smáræði, því Johnny-arnir eru margir.

Mjög margir.

Í okkar bókum væru aðeins Johnny Cash, Johnny Utah og Johnny, fyrrum bassaleikari Mínus, svalari en Johnny Rondo.












Viðbót:

Svo gleymdum við auðvitað Johnny Ringo eins og sauðnautin sem við erum. Ringo er ekki nema einn af tíu svölustu vonduköllum kvikmyndasögunnar!

Við höfðum á tilfinningunni að við værum að gleyma einhverjum. Segjum að Rondo og Ringo séu jafnir í fjórða sætinu - það er sanngjarnt.

"Og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum."

- Opinberun Jóhannesar

JamesOn saga Curry


JamesOn Curry fæddist í Norður-Karólínu árið 1986. Hann lék með Oklahoma State háskólanum og Chicago tók hann í nýliðavalinu árið 2007.

Hann spilaði þó aldrei leik fyrir Chicago en fékk séns á tíu daga samningi með Los Angeles Clippers árið 2010 eftir að hafa spilað í D-deildinni, á Kýpur og í Frakklandi.

Draumurinn varð að veruleika þegar hann kom inn á í 3,9 sekúndur í leik Clippers og Celtics. Lengri varð ferill hans ekki í NBA deildinni - hann var látinn fara daginn eftir.

Sumir segja að Clippers hafi þurft að greiða Curry fullt lágmarkskaup fyrir þessar tæpu fjórar sekúndur sínar, en aðrir segja að það hafi verið minna. Heimildum okkar ber því ekki saman, en okkur þykir ljóst að hann fékk annað hvort 3,1 milljónir króna á sekúndu eða 14 milljónir króna á sekúndu fyrir spilamennsku sína.

Sama hvora töluna þú tekur, er það ansi hreint gott kaup.

Við vitum ekki til þess að leikmaður hafi átt styttri feril en 3,9 sekúndur í NBA deildinni, en það borgar sig ekki að vanmeta einstakling sem heitir JamesOn - svo mikið er víst.


Ágætur þessi Durant-gaur þarna



MJ