Friday, October 31, 2014

Meiðsli hjá Oklahoma



Þetta er í kvöld


NBA leiktíðin hefst fyrir alvöru í nótt þegar tvö best mönnuðu liðin í Austurdeildinni leiða saman hesta sína. Chicago og Cleveland eiga bæði að baki aðeins einn deildarleik og voru þeir báðir við New York Knicks.

Chicago valtaði yfir Knicks í New York í sínum fyrsta leik, en í gærkvöldi náði New York liðið að snúa við blaðinu og skella Cavaliers í fyrsta leik LeBron James í Cleveland í fjögur ár.

Það var mjög greinilegt að Cleveland-menn - og þá sérstaklega LeBron James - voru allt of hátt spenntir fyrir fyrsta heimaleikinn, enda voru þeir lélegir. Þeir komast ekki upp með neitt slíkt í Chicago í nótt, þar sem ógnarsterkt Bulls-lið bíður þeirra.

Flestir - líklega allir - reikna með að það verði þessi tvö lið sem berjist um besta árangurinn í Austurdeildinni í vetur og þó þau eigi bæði eftir að slípa sig betur saman, er forvitnilegt að sjá hvernig nýju leikmennirnir standa sig í báðum liðum.

Fólki er ráðlagt að missa ekki af þessu.

Thursday, October 30, 2014

Allir saman nú


Eins og við mátti búast er Nike búið að gera óguðlega dramatíska auglýsingu í kring um endurkomu LeBron James til Cleveland. Í kvöld spilar hann fyrsta heimaleikinn sinn þar síðan hann var dæmdur réttdræpur þar fyrir fjórum árum.


Þó svona dramatík sé kannski full mikið af svo góðu, er ekki annað hægt en að hafa gaman af metnaði Bandaríkjamanna í að smíða skemmtilegt narratíf og umgjörð um leikinn. Við ætlum amk ekki að missa af leiknum í kvöld - og heldur ekki annað kvöld, þegar LeBron og félagar mæta Bulls í Chicago í beinni á Stöð 2 Sport.

Þetta er byrjað, krakkar. Þetta er byrjað.

Tuesday, October 28, 2014

Brátt kemur Brúnar


Þetta er alveg frábær mynd. Meiri grísinn í ljósmyndaranum að ná henni. Hefur alveg örugglega verið óvart. Ef þú áttar þig ekki á samhenginu, er Anthony Davis í forgrunni og hálf skelkaður Tim Duncan bakatil.
































Einn besti framherji/miðherji í sögu NBA deildarinnar, sem er á síðustu metrunum á ferlinum, fylgist með efnilegasta stóra manninum í dag. Manninum sem góðar líkur eru á að verði besti körfuboltamaður í heimi ef hann heldur heilsu.

Já, hann er alveg svona efnilegur hann Brúnar vinur okkar. Það verður alveg ógeðslega gaman að fylgjast með honum í vetur.


Monday, October 27, 2014

Íslandið í Garðinum


Okkur þykir alltaf jafn vænt um það þegar menn taka sig til og representera NBA Ísland þegar þeir fara á leiki í NBA deildinni. Nýjasta dæmið um þetta gefur að líta hérna fyrir neðan, en það eru myndir frá pílagrímsför KR-ingsins Þorsteins Jónssonar í Madison Square Garden á dögunum.

Steini skellti sér á leik New York Knicks og Toronto Raptors og tók bolinn alla leið með því að fá sér frauðfingur og tilheyrandi. Rúsínan í pylsuendanum er samt að sjálfssögðu bolurinn, en þær eru að verða ansi margar hallirnar í NBA sem heimsóttar hafa verið af Íslendingum í NBA Ísland bolum.

Eins og nærri má geta skemmti Þorsteinn sér konunglega í Garðinum á dögunum, en í samtali við ritstjórnina sagði hann að það sem hefði komið sér mest á óvart væri hvað Amare Stoudemire gæti enn hoppað hátt. Þið sjáið hann einmitt svífa um loftin blá á einni myndinni hérna fyrir neðan.

Við þökkum Þorsteini fyrir þetta skemmtilega innlegg og hvetjum alla sem vilja representera Íslandið sitt til að senda okkur myndir frá ferðalögum sínum ytra. Það eru meira að segja enn til örfáir bolir á lagernum ef einhver hefur áhuga á að fá sér svoleiðis og taka þetta alla leið. Þið getið sent línu á nbaisland@gmail.com til að kanna málið.



Monday, October 20, 2014

Friday, October 17, 2014

Spree



Kaman-könnunin: 1. þáttur


Og Boris



Afturhaldssemi hjá LA Lakers


Byron Scott, fyrrum leikmaður Los Angeles Lakers og núverandi þjálfari liðsins, tilheyrir kynslóð sem gerði ekki mjög mikið af því að taka þriggja stiga skot.

Það er dálítið skondið að það hafi tekið menn hátt í þrjátíu ár að fatta það að undir flestum kringumstæðum, væri þriggja stiga skotið tölfræðilega hagkvæmara skot en skot af millifærinu.

Í dag eru flestir sammála um ágæti þriggja stiga skotsins, ekki síst úr hornunum (þar sem skotið er styttra) og þá eru flestir búnir að átta sig á því að löngu tveggja stiga skotin eru ekkert sérlega sniðug.

Flestir. Ekki Byron Scott.

Scott var ein beittasta skytta meistaraliða Los Angeles Lakers á níunda áratugnum, en hann tók nú ekki nema um tvö þriggja stiga skot að meðaltali í leik yfir ferilinn þrátt fyrir að vera með fínustu nýtingu (37%).

Nú getur vel verið að hann hafi ekki sömu trú á skyttunum sem hann hefur yfir að ráða hjá Lakers í dag og hann hafði á sjálfum sér, en það bara réttlætir ekki þá glórulausu stefnu sem hann hefur nú gefið út.

Hann er nánast búinn að segja mönnum að hætta að taka þriggja stiga skot.

Og árangurinn lætur ekki á sér standa. Hérna eru skotkort úr síðustu tveimur leikjum hjá Lakers.

Enginn þristur úr aðeins átta tilraunum, ekki eitt einasta þriggja stiga skot úr hornunum (hagkvæmasta skotið í NBA deildinni og yfirlýst markmið liða eins og meistara San Antonio Spurs) og níutíuogfimm skot af millifærinu (óhagkvæmasta skotinu í NBA deildinni).


Lakers tapaði umræddum leikjum með 41 og 33 stiga mun. Síðari leiknum á heimavelli gegn liðinu sem flestir reikna með að verði lélegasta liðið í Vesturdeildinni.

Þetta eru bara æfingaleikir og því skipta úrslitin ekki nokkru einasta máli og vissulega voru nokkrar af bestu skyttum Lakers fjarverandi, en það er ekki málið.

Málið snýst um það hvort Byron Scott ætli virkilega að halda þessum skrípaleik áfram.

Ritstjórn NBA Ísland hefur aldrei gefið sig út fyrir að hafa mikið vit á körfubolta og ekki eru þjálfarar í okkar röðum. En andskotinn hafi það, er Byron Scott orðinn geðveikur? Er manninum alvara með þessu?

Við vissum öll að þetta yrði erfiður vetur í gula helmingnum í Los Angeles, en þetta er full mikið af svo góðu. Ætli Byron Scott hafi verið ráðinn til Lakers til að liðið næði að slá Philadelphia við sem lélegasta liðið í NBA í vetur?

Það mætti halda það.

Thursday, October 16, 2014

Er Kobe Bryant búinn?


Eitt heitasta umræðuefnið í NBA deildinni þessa dagana er merkilegt nokk hvorki LeBron James né Cleveland Cavaliers. Nei, við erum að tala um klassískara umræðuefni en það. Við erum að tala um Kobe Bryant.

Það er kannski eins gott að menn séu að smjatta mikið um Kobe vin okkar þessa dagana, því það er ekki víst að hann verði mikið lengur milli tannanna á fólki, þessi sögulega góði leikmaður. Aðalumræðuefnið á ESPN í dag, er sú staðreynd að sérfræðingateymi íþróttarisans metur sem svo að Bryant sé aðeins 40. besti leikmaðurinn í NBA deildinni.

Fyrir ári síðan var líka deilt um hvar Kobe Bryant var settur á þessum árlega lista, en hafi mönnum þótt hann vanmetinn þá, hefur hann hrunið helmingi neðar á listann núna. Þessi listi, þetta flokkunarkerfi þeirra ESPN-manna, er að sjálfssögðu bara gert til gamans.

En það er fullt af fólki þarna úti sem tekur þessu alls ekki þannig. Bryant sjálfur notaði listann til hvatningar á síðustu leiktíð, þó hún hafi reyndar orðið ansi stutt hjá honum blessuðum.

Þroskað körfuboltaáhugafólk eins og við (og þið) gætum þess að taka svona listum ekki alvarlega, en það er þó fínasta tæki til að vekja fólk til umhugsunar um hvað er að gerast í deildinni. Hvernig landslagið breytist ár frá ári.

Tuesday, October 14, 2014

Rólegur, Steph!


Við fréttum að Steph Curry hefði verið alveg pollrólegur á fyrstu mínútunum þegar Warriors-liðið hans rótburstaði Lakers í fyrrakvöld. Við ákváðum því að kíkja aðeins á leiklýsinguna - og jú - það kom heim og saman. Curry var alveg rólegur þarna eins og þið sjáið á myndinni hérna fyrir neðan (smelltu til að stækka).

Lokatölur í leiknum á sunnudagskvöldið voru 116-75 fyrir Golden State. Þetta er bara æfingaleikur og allt það, en það er ekki bara geðveikin í Steph Curry sem stendur upp úr í leiklýsingunni.
Bæði Steve Nash og Kobe Bryant láta verja frá sér skot á fyrstu þremur mínútum leiksins.
Illa farið með virðulega eldri borgara.


NBA spjall í Sportþættinum


NBA Ísland spáir í spilin fyrir veturinn


Það er orðinn næstum því mánuður síðan við spáðum í spilin fyrir veturinn í Austurdeildinni. Liðin þeim megin gerðu sig flest að fíflum síðasta vetur af því þau voru svo óguðlega léleg, en sum þeirra virtust ætla að reyna að gera eitthvað í því í sumar.

Nokkur spennandi félagaskipti gerðu það að verkum að kannski yrði breyting til batnaðar hjá einhverjum klúbbunum eystra. Efst á blaði þar var auðvitað Cleveland, sem endurheimti Týnda Soninn og bætti við sig Ástþóri og nokkrum eldri borgurum.

Við vorum ekkert að stressa okkur á að taka stöðuna í Vesturdeildinni af því liðin þeim megin voru miklu rólegri á leikmannamörkuðum í sumar og mæta flest svipað mönnuð til leiks í haust og á síðustu leiktíð. Það þýðir þó ekki að við setjum þau í umfjöllunarbann.

Landslagið í NBA er sífellt að taka einhverjum breytingum og hérna fyrir neðan ætlum við að skoða liðin í Vesturdeildinni og athuga hvort þau koma með nýjar áherslur, vonir eða væntingar inn í tímabilið sem hefst eftir nokkra daga. Taflan hérna fyrir ofan er veðurspáin sem við gerðum fyrir mánuði síðan, þar sem við tippuðum á hvort liðin myndu bæta við sig, standa í stað eða jafnvel bæta sig í vetur. Það verður gaman að hlæja að því hvað þetta kemur illa út í vor, enda er þetta nákvæmlega til þess -- að hafa gaman af því.

DALLAS MAVERICKS

Eins og þið sjáið á töflunni, tippum við á að Dallas muni bæta við sig á komandi vetri og eftir þeirri spá sjáum við því fyrir okkur að liðið vinni amk fimmtíu leiki.

Þessi bjartsýni stafar að hluta til vegna þess hvað liðið stóð sig vonum framar í úrslitakeppninni í vor, þar sem það var liðið sem veitti meisturum San Antonio hvað verðugasta samkeppni.

Nokkrar mannabreytingar hafa orðið hjá Dallas. Þeir Vince Carter (Memphis), DeJuan Blair (Washington), Jose Calderon (New York), Samuel Dalembert (New York) og Shawn Marion (Cleveland) eru allir horfnir á braut.


Í staðinn eru komnir menn eins og Jameer Nelson (Orlando), Raymond Felton (Latibær), Chandler Parsons (Houston), Al-Farouq Aminu (New Orleans), Richard Jefferson (Utah), Charlie Villanueva (Detroit) og sjálfur Tyson Chandler (New York) er mættur aftur til liðsins sem hann varð meistari með árið 2011.

Þetta eru satt best að segja helvíti miklar mannabreytingar og ef við eigum að segja alveg eins og er, líst okkur nákvæmlega ekkert á sumar þeirra.

Flestir af þessum nýju mönnum hjá Mavericks kunna jú körfubolta, en sumir þeirra hafa gert minna af því að spila körfubolta undanfarin ár.

Hafa gert meira af því að éta kleinuhringi og athuga hvað væri líffræðilega hægt að troða hausnum langt upp í ristilinn á sjálfum sér (við höfum ekki rekist á neinar opinberar mælingar ennþá, en þær hljóta að vera til). Þegar allt er talið er það fyrst og fremst trú okkar á Rick Carlisle þjálfara og Dirk Nowitzki sem stýrir allri þessari bjartsýni á gengi Dallas.

Chandler Parsons ætti að hjálpa liðinu, þó þjálfarinn hans hafi lýst því yfir opinberlega að hann sé með bumbu og þá verður allt annað líf fyrir liðið að fá Tyson Chandler aftur inn í miðjuna til að binda saman vörnina, þó hann sé orðinn ansi fullorðinn.

Strípur eða dauði








Viðurkenndu það bara...


... þú ert búin(n) að vera hugsa um hækkandi hárlínu LeBron James í allt sumar og þig dauðlangar að sjá hver staðan á henni er í dag. Örvæntið ekki. Íslandið reddar þessu fyrir ykkur. Það er að verða orðin spurning fyrir LeBron að byrja að spila með doo-rag. Ennisbandið veldur þessu ekki.




Monday, October 13, 2014

Hagvöxtur


Kaffimógúllinn Howard Schultz (til vinstri á myndinni) seldi hinum slímuga Clay Bennett körfuboltafélagið sitt Seattle Supersonics fyrir 350 milljónir dollara árið 2006.

Það er svipuð upphæð og Kevin Durant (sem Seattle tók númer 2 í nýliðavalinu árið eftir) fær fyrir skósamninginn sem hann var að gera við Nike þegar allir bónusar eru taldir.

Í dag eru "ómerkilegustu" klúbbarnir í NBA deildinni á borð við Milwaukee og Sacramento metnir á yfir 500 milljónir dollara. Fyrir skömmu var met slegið þegar Steve Ballmer keypti LA Clippers á tvo milljarða dollara.

Ætli Schultz sjái eftir sölunni?

Undir/yfir töflurnar


Þeir sem eiga eftir að heyra undir/yfir hlaðvörpin tvö geta heyrt þau með því að fara inn á þar til gerða síðu.  Um er að ræða þætti 30 og 31 í röðinni.

Þar spáðu þeir Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason í spilin fyrir komandi leiktíð og "tippuðu" undir eða yfir á spár spilafíklanna í Las Vegas. 

Þetta er ljómandi góð leið til að gera sig að fífli eins og þið sjáið, því aðeins tveimur dögum eða svo eftir að bæði Baldur og Gunnar sögðu "yfir" á 57,5 sigra hjá Oklahoma, bárust þær fréttir að Kevin Durant myndi líklega ekki verða með Oklahoma City fyrstu vikurnar á tímabilinu vegna meiðsla. 

Þar með erum við ekki að segja að Oklahoma geti ekki unnið 58 leiki í vetur, það getur sko meira en verið þó Durant missi úr nokkra leiki. Þetta er bara dálítið dæmigert.

Við ákváðum að birta spár þeirra félaga hérna svo þið getið séð hvað þeir eru vitlausir þegar tímabilinu lýkur næsta vor. Þá þurfið þið ekki að hlusta á bæði hlaðvörpin aftur - þá er nóg að draga fram þessa töflu. 

Svo getið þið auðvitað gert ykkar eigin spá og séð hvernig ykkur tekst til í spámennskunni. Þeir Vegas-menn ná oft að vera glettilega nálægt þessu.

Sunday, October 12, 2014

Hrakfarir Spurs á Íslandi


Eins og allir vita er Ísland merkilegasta og besta land í heimi. Þess vegna var kominn tími til að besta körfuboltalið í heimi kæmi hingað, þó ekki væri nema í mýflugumynd.

Einn af fréttariturum NBA Ísland á Suðurnesjum var svo heppinn að hitta allt Spurs-klanið þegar það millilenti í Keflavík á leið sinni heim frá Tyrklandi. Þarna voru allir leikmennirnir, þjálfarateymið, aðstoðarfólk, klappstýrur og kok (konur og kærustur).

Það sorglega við þetta stopp Spurs-manna var að þeir eiga eflaust eftir að gretta sig þegar þeir heyra aftur minnst á Ísland, því í þá klukkutíma sem þeir þurftu að stoppa, fengu þeir hvorki vott né þurrt. Allt var lokað ekkert í boði. Ekki beint góð landkynning. Hér áður fengu menn frá NBA lopapeysur, sjúss og reiðtúr eins og allir merkilegir menn eiga að sjálfssögðu að fá þegar þeir koma til landsins.

Nei, við skulum því bara þakka fyrir að Tim Duncan skuli hafa nennt að skrifa þessar þrjár eiginhandaráritanir sem hann var beðinn um (ein þeirra á myndinni hérna fyrir ofan). Þú biður svona stórmeistara ekki um að sitja fyrir á bolamynd ef hann hefur hvorki fengið vott né þurrt - það væri bara frekja.

Annars var lítið hægt að kreista bitastætt upp úr hinum heppna útsendara okkar varðandi San Antonio liðið. Hann játti því að kærastan hans Tim Duncan væri, jú, svo sannarlega hugguleg - og bætti við að klappstýrur Spurs væru líka... ansi vingjarnlegar. Fleira var það nú ekki.

Friday, October 10, 2014

Nýtt hlaðvarp


Hefð hefur myndast fyrir því að gera hlaðvarp í kring um spár veðbanka í Las Vegas um hve marga sigra NBA liðin koma til með að vinna í vetur. Það eru Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason sem sjá um prógrammið, en þeir blöðruðu svo mikið að skipta varð þættinum í tvennt. 30. þáttur fjallar þannig um Austurdeildina og 31. tekur á vestrinu. 

Smelltu hér til að fara á hlaðvarpssíðuna ef þú ert ekki enn búin(n) að átta þig á því hvernig á að komast þangað.

Myndræn upphitun: Fjölmiðladagarnir í NBA


Það ríkir alltaf ákveðin spenna á fjölmiðladögunum í NBA deildinni. Við fáum að heyra hvert klisjuviðtalið á eftir öðru og allir eru rosalega bjartsýnir á gengi vetrarins.

Eins og venjulega hefur verið nokkuð um félagaskipti og svo eru nokkrir áhugaverðir nýliðar að bætast í flóruna, svo það er ekki úr vegi að henda hérna inn örfáum myndum frá fjölmiðladögunum. Þið eigið örugglega eftir að reka upp stór augu þegar þið sjáið eitthvað af þessum mönnum í nýjum búningum. Hér er (hrokalaust) á ferðinni besta mögulega sjónræna upphitunin fyrir komandi tímabil í NBA. Eitthvað af þessum myndum eru risastórar og fínar (prófa að smella á þær) flott að setja þær á desktoppinn heima og í vinnunni. Þetta er aaalveg að byrja, krakkar.