Wednesday, March 22, 2017

Vörutalning marsmánaðar í austri og vestri


Ekki halda að við séum ekki með móral yfir því hvað við sinnum ykkur lesendum illa þessi dægrin, þegar sauðburðurinn er þegar hafinn hér heima og línur að skýrast inn í úrslitakeppnina í NBA deildinni. Þess vegna ætlum við að taka hér stutta vörutalningu, smá yfirlitsflug og skoða hvað er að gerast í NBA núna. Hvað skiptir máli og hvað ekki, hvað er áhugavert og hvað ekki. Allur sá djass.

Byrjum fyrir austan. Við byrjum alltaf þar, af því það er... þið vitið. Austrið. Áður en lengra er haldið er rétt að vara ykkur við því að þessi pistill, sem hugmyndin var að yrði 2.000 orð til að byrja með, er reyndar nær því að vera 20.000 orð.

Æ, þið vitið hvernig þetta er stundum. Við höfum náttúrulega ekki skrifað mikið að undanförnu og ekkert gengur að fá fólk í hlaðvarp, svo þið verðið þá bara að sætta ykkur við að fá svona aurskriðu af pistli í andlitið í dag í staðinn.

Ekki gleyma því að þetta er allt ókeypis ennþá og ef þú nennir ekki að lesa nema t.d. hvað við segjum um liðið þitt, þá geturðu bara skrollað niður, lesið það og drullað þér út. Ekkert vesen. Drífum okkur í að skoða liðin og hvað er að gerast. Fyrst austur.



Austurdeildin okkar er búin að vera dálítið undarleg að undanförnu. Lið að hóta því að fara fram úr Cleveland í töflunni, en ekkert þeirra er enn búið að taka fram úr LeBron og félögum af því þau eru ekki nógu góð til að gera það - og það þó Cleveland sé búið að rétta þeim lyklana að toppsætinu og bjóða þeim að taka fram úr sér - og fá ís í eftirmat.

Með þessu ranti erum við svo sem ekki að drulla yfir það sem Boston, Washington og ætli við verðum ekki að segja Toronto, eru að reyna að gera. Þau eru bara ekki betri en þetta greyin.

Að þessu sögðu, er auðvitað bara einni spurningu ósvarað í austrinu. Sömu spurningu og við höfum öll spurt okkur undanfarin ár:

Ætlar eitthvað af þessum liðum þarna í austrinu að gera meira en að vera sæt og vinna tvo leiki á móti LeBr... eh, Cleveland, í úrslitakeppninni?

Stutta svarið er nei. Og það þrátt fyrir að Cleveland hafi verið að sýna á sér ákveðin veikleikamerki í vetur, t.d. með því að tapa annað slagið körfuboltaleikjum.

Það eru búin að vera mikil meiðsli í liði Cleveland og þar er mikið af nýjum mönnum sem þarf að slípa inn í prógrammið - og þeir eru misgóðir og missprækir auðvitað.

En þið vitið jafnvel og við að ef LeBron James verður í þokkalegu standi í úrslitakeppninni og meðreiðarsveinar hans með lágmarks meðvitund, er ekkert lið í austrinu ennþá sem getur sent hann í sumarfrí. Það er bara þannig.

En ef LeBron er of þreyttur eða meiddur - og ef menn eins Kyrie Irving og Kevin Love eru ekki heilir heldur? Þá getum við farið að ræða óvænta hluti. En ekki fyrr. Sorry.

Það er bara þannig og þið vitið það, þó lið eins og Boston, Washington og Toronto séu örugglega alveg til í að lemja Cleveland-menn aðeins á leið sinni í úrslitin að þessu sinni.

Þau eru bara öll einum eða tveimur góðum leikmönnum frá því að gera einhverja alvöru úr því eins og staðan er í dag.

Við skulum pæla betur í þessu þegar úrslitakeppnin byrjar og við sjáum meiðslalistana hjá liðunum sem um ræðir. Þeir ráða þessu auðvitað alltaf, alveg sama hvort það er í austri eða vestri. Því miður.

P.s. - Jú, jú, við erum alveg búin að sjá hvað Miami er búið að vera að gera undanfarið. Það sem gerðist þar var að Dwyane Wade fór og Spoelstra þjálfari rétti Goran Dragic boltann og raðaði skyttum í kring um hann.

Þessi hópur ógæfumanna hefur heldur betur smollið saman undir öruggri stjórn frábærs þjálfara sem fólk var búið að gleyma að væri frábær. Niðurstaðan er heitasta lið Austurdeildarinnar síðan um áramót eða svo. Magnað og skemmtilegt - ekkert að þessu.

Þetta er samt orðið yfirdrifið nóg af rausi um þessa Austurdeild og þú veist það. Drífum okkur aftur vestur. Það er eina vitið. Byrjum á því að skoða toppliðin og höldum svo hægt en örugglega niður töfluna. Mikið hrikalega erum við fegin að það eruð þið en ekki við sem þurfið að lesa allt þetta torf, lol...



Hlutirnir eru alltaf skemmtilegri í vestrinu og þeir eru það líka í dag, þó að uppröðun liða í úrslitakeppnina hafi að hluta til verið fyrirsjáanleg um hríð. Auðvitað hreppa erfiðleikar Golden State allar fyrirsagnir fjölmiðlanna og það er eðlilegt. Það er fréttamatur þegar ofurlið hiksta í fyrsta sinn, þó það nú væri.

Það sem er að gerast hjá Golden State, fyrir utan það að einn besti körfuboltamaður heims, sem liðið er búið að vera að púsla inn í sóknarleikinn sinn í allan vetur, er núna meiddur af því að floppandi auminginn sem á að heita miðherjinn hans kastaði sér á hnéð á honum eins og fáviti.

Já, Kevin Durant er með fokkt opp hné af því að vælandi fjallið af manninum Zaza Pachulia sem á að heita maðurinn í miðjunni hjá Golden State, lét pólskan hnefaleikara henda sér á hnéð á honum. Þetta er ekkert flóknara.

Flúk meiðsli gerast, en það var ekkert flúk við það hvernig þetta gerðist hjá Durant ræflinum. Pachulia kastaði sér á hnéð á honum eins og floppandi, grenjandi, vælandi, dúkkulísan sem hann er.

Og úr því við erum að óhreinka okkur við það að tala um Zaza Pachulia á annað borð... hefur einhver séð hann klára skot í teignum í vetur? Nei, svona í alvöru?

Ef maðurinn fær boltann í teignum, kjúar hann Imp-inn í Doom 2 gólið sitt og hendir boltanum eitthvað út í loftið!

Ef hann fær boltann nálægt hringnum, gefur hann tuðruna frekar á lítinn bakvörð undir körfunni en að drullast upp og slútta eins og fullorðinn einstaklingur!

Þetta er gjörsamlega óþolandi! Í guðanna bænum grow a pair, þarna georgíska grænmetisætan þín!

Þú skalt ekki voga þér að gera lítið úr þessu, lesandi góður. Zaza Pachulia er óþolandi íþróttamaður á Diego Costa-mælikvarða, bara á dálítið ólíkan hátt.

Costa er aðallega óþolandi af því hann er &@&$&xx%$$&x; en Pachulia er óþolandi af því hann er svo mikill aumingi.

Það var stundum átakanlegt að horfa á Andrew Bogut athafna sig í kring um körfuna í sóknarleiknum þegar hann mannað miðjuna hjá Warriors, en hann gat amk slúttað þegar færi gafst. Bara PAKKAÐ tuðrunni þegar hann fékk hana í teignum!

Zaza gæti ekki pakkað kókópöffsi þó hann missti það í klofið á sér á meðan hann er að horfa á endursýninguna á Glee-maraþoninu sínu. Ekki dissa þetta. Þetta skiptir máli.

Það er svo hrikalega fagurfræðilegt turn-off að sjá svona trúð eins og Pachulia eiga að reka endahnútinn á sóknir hjá svona fallegu körfuboltaliði. Við vitum alveg að hann er ekkert að gera mikið af því að reyna að skora (hann forðast það reyndar eins og hann getur), en við þurfum ekki að sjá nema 3-4 svona grenjur frá honum til að fara í vont  skap og byrja að hugsa um að skipta yfir á Útsvar eða hreinlega bara á næsta Brooklyn-leik!










En ókei. Eigum við þá sem sagt að hafa áhyggjur af liði Warriors, úr því það er nú allt í einu farið að tapa körfuboltaleikjum eins og venjuleg lið lenda í reglulega?

Sko, þið megið gera það ef þið viljið, en við nennum því ekki af því við erum búin að greina hvað er að hrjá þetta lið fyrir löngu - og það þó við höfum ekki hundsvit á körfubolta.

Stundum er talað um að lið sem vinna titilinn byrji að þjást af meira-sjúkdómnum. Að leikmenn fari að verða uppteknir af samningunum sínum og skotunum sem þeir fá að taka og hvað þeir fá margar auglýsingar og af hverju einhver í liðinu sé að fá meiri peninga og hærri samninga og fleiri auglýsingar en þeir. Það er klassískur sjúkdómur sem herjar á lið sem hafa gengið í gegn um það sem Golden State hefur gert.

En þetta er ekki það. Alls ekki. Steve Kerr og hið vandaða skrifstofuteymi Warriors hafa náð að halda þessum sjúkdómi að mestu utan búningsklefa Warriors.

Nei, það sem er að hjá Golden State núna, er að stjörnur liðsins eru einfaldlega úrvinda á sál og líkama. Fyrir utan meira-sjúkdóminn sem við lýstum hér að ofan, er mannleg þreyta annað stærsta atriðið sem knésetur góð NBA lið.

Og þetta Golden State lið er gjörsamlega á gufunni um þessar mundir. Það hefur ekki þessa orku sem það hefur haft undanfarin tvö til þrjú ár. Leikmenn liðsins eru sumir hverjir að komast á viðkvæman aldur og álagið á stjörnum liðsins síðan Steve Kerr tók við því hefur verið ómanneskjulegt.

Fyrir það fyrsta, er álagið á öll NBA lið ómanneskjulegt. Af hverju haldið þið að hvíld sé stærsta fréttamálið í NBA akkúrat í dag? Það er af því menn eru loksins að fatta það að það er ekki hægt að ætlast til þess að homo sapiens, jafnvel eins ofurmannlega vel þjálfaður og hann er í NBA deildinni, þoli annað eins álag til lengdar án þess að eitthvað hreinlega gefi sig.

Nú fara þeir sem aðhyllast kenningar gamla skólans að frussa og segja að stjörnur dagsins í dag séu aumingjar og þeir fái alveg nóg borgað fyrir þetta svo þeir geti ekki drullast til að mæta í þessa leiki - og þeir hafa í sjálfu sér alveg rétt fyrir sér.


Hey, ekki halda að við sýnum þessum skoðunum ekki skilning. Við héldum með Stockton og Malone, sem misstu ALDREI úr leiki, hvort sem þeir voru að missa af jarðarförum, fæðingum eða voru með brotin bein.

Gleymið því bara ekki að við erum líka búin að vera að skrifa um NBA deildina síðustu c.a. tvö árin eða svo, þar sem meiðsli hafa ekki varpað skugga á bæði deildarkeppni og úrslitakeppni, heldur næstum því eyðilagt hana! Og það helvíti er bara óásættanlegt.

Staðreyndin er sú að það er miklu meira álag á leikmenn í NBA deildinni í dag en var fyrir tuttugu og þrjátíu árum síðan. Leikmenn eru orðnir sterkari og fljótari, varnir eru orðnar miklu, miklu, flóknari og betri en þær voru og þó að deildin í dag sé að mörgu leyti miklu meira "soft" en hún var hér áður, er keyrslan á leikmönnum orðin miklu meiri og þá skiptir engu fjandans máli hvort þeir fljúga á fyrsta klassa í einkaflugvélum eða í almennu farrými þar sem var reykt ofan í þá eins og hérna áður.

Við ætluðum ekki að fara út í þessa sálma, en svona er að vera að skrifa pistla um miðjar nætur með vel hávært og gott þungarokk í eyrunum.

Þannig að: Leikmenn Golden State eru örmagna og án eins af fimm bestu körfuboltamönnum heims og þess vegna eru þeir að tapa einum og einum körfuboltaleik. Og reyndar aðeins meira en það. Og þess vegna er San Antonio byrjað að anda óþægilega ofan í hálsmálið á þeim og hóta því að taka af þeim sæti sem þeir hafa verið áskrifendur að í tvö ár - efsta sæti deildarinnar.



Reyndar er það nú þannig þegar þetta er skrifað að Warriors-liðið er enn með 2,5 leiks forystu á Spurs þegar ekki nema um tólf leikir eru eftir, þannig að það þarf eitthvað stórkostlega spes að gerast til að Texas-liðið taki fram úr Warriors.

Jú, jú, þau eiga eftir að mætast einu sinni í San Antonio og allt það, en ef við eigum að segja alveg eins og er, höfum við bara alls ekki stórar áhyggjur af því þó Golden State missi þetta sæti í hendur San Antonio því það er ekki einu sinni víst að þau eigi eftir að mætast í úrslitakeppninni. Meira um það síðar.

Við vitum að það fara allir með þessa gömlu og þreyttu tuggu þegar þeir tala um San Antonio, en það er hætt að vera fyndið hvað Gregg Popovich heldur þessu liði góðu endalaust. Sérstaklega varnarlega. Það bara meikar ekki nokkurn einasta, einasta sens.

Lið sem er að tefla fram mönnum eins og Tony Parker, Pau Gasol og David Lee í lykilmínútur á hverju kvöldi á ekki með nokkru móti að vera svona sterkt varnarlið. Og þá er okkur alveg sama hvað Kawhi Leonard og Danny Green eru góðir varnarmenn.

Þetta meikar engan sens og ef þú segir að þetta meiki sens, ertu bara að rugla einhverja steypu af því Gregg Popovich er eini maðurinn í heiminum sem skilur af hverju San Antonio er ennþá að spila eina bestu vörn sem sést hefur í NBA deildinni þó Tim Duncan sé bara heima hjá sér að spila tölvuleiki.

Þó San Antonio hafi verið alveg ofboðslega sterkt í deildarkeppninni eins lengi og elstu menn muna, hefur liðið auðvitað ekki verið neitt sérstaklega sannfærandi í úrslitakeppninni síðan það vann titilinn árið 2014. Stóran hluta af því má rekja til þess að liðið hefur mætt kryptónítliðinu sínu í úrslitakeppninni, ofuríþróttaliðinu Oklahoma City.

Á San Antonio eftir að vaða uppi í úrslitakeppninni í vor nú þegar það er laust við að mæta liði með Westbrook, Durant, Ibaka og Adams á leið sinni í gegn um vestrið?

Hver veit. Við skulum sjá. Við skulum ekki halda neitt niðri í okkur andanum, en við skulum sjá til.

Það er vinsælt að spekúlera um það hvort þessi Spurs-vél eigi til annan gír til að fara í í úrslitakeppninni, en eins og einhver sagði (sennilega Zach Lowe), er San Antonio á sínu venjulega malli nógu gott lið til að vinna flest lið í NBA deildinni hvenær sem er.

Úff, bara tvö lið í vestrinu búin og þú enn að lesa? Hvað er eiginlega að þér? Hefurðu ekkert betra að gera?

Næst á blaði er Houston. Vá, þetta Houston-lið.

Mike D´Antoni á örugglega inni afsökunarbeiðni frá NBA Ísland eins og öllum öðrum miðlum sem hraunuðu yfir hann og Houston-klúbbinn í heild sinni í haust, þegar þeir spurðu hvurn fjandann þessir vitleysingar þarna í Houston væru eiginlega að hugsa  með því að ráða þennan útbrunna þjálfara og umkringja James Harden með leikmönnum sem höfðu ekki spilað tvo leiki í röð síðan Cosby Show var að gera góða hluti í sjónvarpinu.

Við nennum ekki að fletta því upp, en okkur rekur ekki minni til þess að við höfum hraunað yfir Houston í haust, en við erum alveg tilbúin að kvitta undir að við höfðum stórar efasemdir um þessi plön Texas-félagsins. Og þessar efasemdir voru alveg réttmætar. D´Antoni hafði hrökklast úr tveimur síðustu djobbunum sínum með hálfgerðri skömm og menn eins og Ryan Anderson og Eric Gordon voru ALLTAF meiddir þegar þeir voru hjá New Orleans.



Gott gengi Houston í vetur hefur hinsvegar kennt okkur tvær mikilvægar lexíur. Mike D´Antoni MUN vinna 50+ leiki ef hann fær lið í hendurnar sem kaupir planið hans sem þjálfara - sérstaklega ef hann getur lagt kaotískan sóknarleik sinn á herðarnar á manni sem er ekki bara stjörnuleikmaður, heldur MVP-kandídat og að New Orleans er mjög líklega með versta sjúkraþjálfarateymi í sögu atvinnuíþrótta (og drasl kúltúr og enga sigurhefð).

Ekki halda að við sjáum ekki biðraðirnar sem eru nú þegar byrjaðar að myndast fyrir utan Houston. Biðraðir NBA-penna sem eru byrjaðir að skrifa greinarnar sínar um að leikaðferð Mike D´Antoni (við erum að sjá stera-útgáfuna af henni hjá Houston í vetur og við eigum eftir að sjá hann ganga enn lengra meðan hann þjálfar liðið - það tekur miklu fleiri þrista á næsta tímabili) sé fín í deildarkeppninni en virki engan veginn þegar kemur í úrslitakeppnina af því honum er skítsama um allan varnarleik. Þessar greinar verða tilbúnar í leik fjögur hjá Houston í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Það má vel vera að Houston detti fyrr úr keppni en vonir stóðu til um í úrslitakeppninni í vor, en við getum sagt ykkur dálítið skemmtilegan hlut alveg með vissu. Það má vel vera að þjálfarar liðanna sem mættu liðunum hans D´Antoni í úrslitakeppninni hér áður hafi ekki verið sérlega hræddir við liðin hans (þá meinum við Phoenix-liðin hans með Nash og Stoudemire), en þeir eru drullu stressaðir að mæta þessu Houston-liði í dag.



Þeir eru allir með ákveðnar hugmyndir um hvernig þeir geta hægt á James Harden sem er vissulega höfuð snáksins, en málið er bara að 2017 útgáfan af Harden er miklu hættulegri mótherji en fyrri árgerðir af honum.

Harden tvöþúsundogsautján hugsar jafn mikið um að spila upp á félaga sína og að skora sjálfur og það er aðallega af því að núna spilar hann í sýstemi sem er hannað í kring um styrk hans sem leikmanns og nú er hann í fyrsta skipti umkringdur með almennilegum skyttum. Gaurum sem láta vaða af tíu metrunum ef sá gállinn er á þeim.

Harden er með yfir 10 stoðsendingar að meðaltali í leik af því skilaboðin frá Harden og öllu þjálfarateyminu til allra leikmanna liðsins (fyrir utan Clint Capela og kannski Nene) er að skjóta boltanum þegar Harden gefur hann. Alltaf. Strax.

Og leikmenn Houston vinna svona marga leiki af því þeir taka alltaf fleiri 3ja stiga skot en þú og hitta oftast úr miklu fleiri 3ja stiga skotum en þú, af því þeir eru að fá boltan í betri færum til að taka 3ja stiga skot og af því það eru oftast allt frá sæmilegum og upp í mjög góðar 3ja stiga skyttur sem eru að taka þessi skot.

Skilaboðin hjá Mike D´Antoni eru einföld. Ef þú færð boltan fyrir utan og ert opinn - þá tekurðu helvítis skotið - algjörlega undantekningalaust, nema félagi þinn sé í betra færi.

Ef þú færð tækifæri til að taka opið 3ja stiga skot, en tekur það ekki, færðu hárblásturinn frá D´Antoni - alveg sama hvort þú heitir Ryan Anderson (frábær skytta) eða Corey Brewer (Guð almáttugur forði okkur frá því að horfa upp á þennan mann, sem nú spilar (ekki) með Lakers, grýta boltanum eitthvað upp í stúku enn eina ferðina!).

Höfum við trú á því að þetta Houston-lið vinni margar seríur í úrslitakeppninni? Ekkert rosalega, en við erum samt mjög spennt að sjá hvernig þetta dæmi gengur upp hjá þeim. Væntanlegir mótherjar Houston eru skíthræddir við að mæta þessu liði af því þeir vita sem er að það getur unnið hvaða leik sem er ef það dettur bara inn á þokkalega skotleiki. Houston getur unnið hvaða lið sem er, ef það á þokkalega skotleiki, og gildir þá einu um hvort það spilar góðan varnarleik eða ekki.

Og það er einmitt þetta sem er svo skondið og forvitnilegt við þetta Houston-lið í framtíðinni. Þetta er liðið sem er að fara að ganga eins langt og það hreinlega þorir með moneyball-boltann. Ekki láta ykkur bregða þó þetta lið, sem eru að fara að rústa gamla metinu yfir flesta þrista tekna á tímabili eftir nokkrar vikur, gjörsamlega stúti því meti aftur næsta vor.

Ef eitthvað NBA lið á eftir að taka þessa einföldu stærðfræði um að 3ja stiga skotið gefi meira en 2ja stiga skotið út í allar þær klikkuðustu öfgar sem til eru, er það þetta Houston-lið.

Úrslitakeppni NBA deildarinnar er svo mikið maraþonmót að flestir hafna því að lið í NBA geti unnið meistaratitilinn af því þau "hitnuðu" skyndilega í úrslitakeppninni eins og gerist stundum í NHL eða NFL.

Það er einna helst að menn kvitti undir þessa kenningu þegar þeir lýsa vegferð Dallas-liðsins að titlinum árið 2011, sem má til sanns vegar færa.

En getur lið orðið NBA meistari út af því einu að það einfaldlega skaut andstæðing sinn í kaf í fjórum af sjö viðureignum í öllum fjórum umferðum úrslitakeppninnar?

Þið fáið að sjá það - af því það er nákvæmlega það sem þetta Houston-lið ætlar að reyna að gera.

Þegar þetta er ritað er Utah í síðasta sætinu sem gefur heimavallarrétt í 1. umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni en það breytist fljótlega. Við lýstum því yfir fyrir nokkrum dögum að Clippers-liðið væri búið að gefa baráttuna um 4. sætið upp á bátinn af því liðið fór allt í einu að hvíla stjörnurnar sínar og tapa alls konar asnalegum leikjum, en með því vorum við að vanmeta fúsleika liðanna á þessu róli í vestrinu til að tapa körfuboltaleikjum.

Utah hangir í 4. sætinu sem stendur, rétt á undan Clippers, Oklahoma og Memphis, en það verður Clippers-liðið sem tekur þetta 4. sæti og Utah á mjög líklega eftir að detta niður um eitt eða tvö sæti í viðbót af tveimur ástæðum: Liðið getur ekki með nokkru einasta móti hangið heilt tvo leiki í röð og af því liðið á mjög erfitt prógramm eftir af deildarkeppninni.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þessi lið raðast upp á lokasprettinum og ef að líkum lætur, kemur endanleg röð ekki í ljós fyrr en jafnvel á síðustu klukkutímum deildarkeppninnar eins og oft hefur gerst í vestrinu.

Clippers-liðið er eina liðið af þessum fjórum sem einhverjar væntingar eru gerðar til í úrslitakeppninni og það er mjög eðlilegt af þeirri einföldu ástæðu að Clippers-liðið er lang sterkast af þeim - ef það hangir einhvern tímann heilt.

Við höfum reyndar sagt það áður og fullyrðum það aftur hér, að þetta Clippers-lið á ekki eftir að fara langt í úrslitakeppninni af þeirri einföldu ástæðu að það verður ekki heilt heilsu. Það er aldrei heilt heilsu í úrslitakeppninni, aldrei, og það verða ekki bara meiðsli sem fokka þessu upp fyrir þeim, það verður eitthvað annað drama líka og fyrir vikið verður þetta í síðasta skipti sem þið sjáið núverandi útgáfu af Clippers-liðinu, svo njótið þess endilega ef ykkur er annt um þetta lið.

En ef við sleppum þessum gálgahúmor, yrði það ekkert mestu fréttir ársins ef þetta Clippers-lið næði að vinna tvær umferðir í úrslitakeppninni og koma Chris Paul þar með í undanúrslit í fyrsta skipti á ferlinum.

Gallinn við slíka bjartsýni er bara að eins og staðan er í dag, bendir fátt til annars en að þetta Clippers-lið þurfi að mæta Golden State í annari umferð ef það kemst þangað, og það er ekki rimma sem leikmenn Clippers hlakkar til að lenda í. Golden State hefur átt Clippers-liðið skuldlaust undanfarin tvö ár eða meira og virðist ekki hafa neitt fyrir því að vinna það.

Á sama hátt hefur Clippers-liðið gjörsamlega drullað yfir Utah síðustu ár (þangað til Utah náði loksins að vinna einn um daginn) og því ljóst að Spútnikliðið í Saltvatnsborg langar örugglega ekkert að mæta Clippers í 1. umferðinni eins og myndi gerast ef úrslitakeppnin hæfist í dag - og það alveg óháð því hvort það væri með heimavöllinn eða ekki.

Utah-liðið hefur í rauninni staðið sig ótrúlega vel í vetur á miðað við þau lygilegu meiðsli sem legið hafa á því allt árið. Þetta er efnilegt lið með þrjá góða körfuboltamenn sem fyllir upp í eyðurnar með ellilífeyrisþegum og börnum.

Það yrði ekkert minna en kraftaverk ef þetta lið næði að vinna seríu í úrslitakeppni hvort sem það hefði heimavöllinn eða ekki vegna reynsluleysis, meiðsla og þeirrar leiðindastaðreyndar að liðið er ekki með neyðarkarl eins og Golden State, San Antonio, Houston og (nokkurn veginn) Clippers (já, Chris Paul er neyðarkarl).

Við látum þetta duga um Utah að þessu sinni, en þið getið átt von á því að þurfa að lesa eitthvað um tvo af leikmönnum liðsins hér á þessu vefsvæði á næstu vikum, því þeir hafa unnið fyrir því í vetur og það er enginn að fara að skrifa um þá nema við.

Oklahoma og Memphis eru enn að blanda sér í þessa baráttu líka, eins gjörólík og þessi lið eru nú og eins ólíkan vetur og þau hafa átt.

Oklahoma klárar veturinn með 45+ sigra og ef við horfum kalt á það, er það árangur sem fer líklega talsvert fram úr væntingum okkar í haust. Tvennt kemur þar til:

Annars vegar Tortímandatímabilið sem Russell Westbrook er að eiga og hinsvegar sú staðreynd að við erum aftur að vanmeta hvað Billy Donovan er góður þjálfari.

Jú, við höfum tvisvar vanmetið Donovan sem þjálfara, en það er ekkert vanmat þegar við segjum ykkur að Oklahoma fellur út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Oklahoma er bara ekki með nógu gott lið til að vinna einvígi í úrslitakeppni, nema kannski ef það næði að læðast bakdyramegin að Houston ef það færi svo að þessi lið mættust í úrslitakeppninni.

Oklahoma vinnur ekki San Antonio eða Clippers í seríu í úrslitakeppni nema einhver stórkostleg meiðsli komi til. Það er bara þannig.

Memphis er ekki mikið líklegra til að vinna seríu í úrslitakeppni. Það langar engan að spila við Memphis í úrslitakeppni af því þetta er Memphis, en við eigum eftir að sjá það að þessi (gamla) útgáfa af Memphis vinni seríu í úrslitakeppni. Mótherjar Memphis eiga eftir að koma blóðugir og rispaðir út úr seríunni, en þeir tapa henni ekki, nema eitthvað alveg sérstakt komi til (eins og t.d. mikil meiðsli).

Baráttan um áttunda sætið í Vesturdeildinni er búin að vera dálítið eins og að horfa á tvo róna reyna að slást um síðasta kardóglasið, en þó Denver sé búið að sitja í áttunda sætinu í góðan tíma, er Portland nú að gera mjög harða atlögu að því eins og við spáðum fyrir nokkrum vikum.

Denver á drullu erfiða töflu eftir og það verður því að minnsta kosti ljóst að ef strákarnir hans Mike Malone ná í úrslitakeppnina, verður það af því þeir áttu það skilið (ef við gefum okkur það að lið sem eiga það ekki skilið geti stundum komist í úrslitakeppni).

Ef einhver myndi spyrja okkur, myndum við klárlega segja að það yrði Portland sem tæki 8. sætið eins og staðan er í dag,  en það er þá bara af því Denver á svo erfiða töflu eftir, ekki af því við höfum svo brjálaða trú á Portland. Þetta Portland-lið er eitt af þeim liðum sem olli okkur hvað mestum vonbrigðum í vetur og þá ekki endilega af þeim ástæðum sem þig grunar. Við skiljum bara ekki hvernig í fjandanum lið getur bara gleymt því hvernig á að spila vörn á einu sumri.

Eins og Portland nær einhvern veginn alltaf að vera Spútniklið, er það núna eitt af þeim liðum sem við öfundum hvað minnst. Portland er búið að gera markaðsvirðis-samninga við nánast alla leikmennina sína á síðustu mánuðum og er fyrir vikið beisikklí fokkt í framtíðinni. Læst inni með leikmannahóp á ofurlaunum sem virðast ófærir um að vinna meira en annan hvorn körfuboltaleik sem þeir spila. Fúlt dæmi.

Denver er aftur á móti í allt annari stöðu. Þar er rósailmurinn að drepa alla um þessar mundir þó sé ótrúlega stutt síðan að voru þar allir í þunglyndiskasti. Staðreyndin með þetta Denver-lið í vetur er dálítið skondin, því Denver er nefnilega nákvæmlega liðið sem Minnesota átti að vera í vetur.

Okkur finnst eins og það séu ekki nema örfáar vikur síðan við vorum að horfa á þetta Denver-lið tapa leikjum á útivöllum þar sem það virtist ætla að skjóta andstæðing sinn út úr kofanum í 1-3 fjórðunga en missti sig svo í ruglið og tapaði með 20 stigum. Denver er reyndar ennþá að gera þetta reglulega - og það er mjög eðlilegt - því meðalaldurinn í liðinu er ekki nema rétt yfir fermingu.

Stóri munurinn á Denver þá og Denver í dag er auðvitað að það er aðeins nær því að vera með eitthvað plan sóknarlega í dag en það var þá. Og þetta plan - þetta stóra plan - heitir Nikola Jokic.



Við hvetjum alla stráka og stelpur sem hafa ekki horft á leiki með Denverliðinu í vetur að reyna að kynna sér málið, þó ekki væri nema til þess að sjá Jokic bjóða upp á 25/13/7 leiki kvöld eftir kvöld og horfa á fjörugan sóknarbolta.

Eins og við erum alltaf að tyggja ofan í okkur, finnst okkur svo rosalega stutt síðan að við vorum að tala um að miðherjastaðan í NBA væri steindauð, en nú er eins og góðir miðherjar vaxi hreinlega á trjánum. Jokic er einn þeirra.

Jokic verður aldrei góður varnarmaður í nútímaskilningi þess orðs, en hann er klókur strákur með hæfilega mikið skap, sem á eftir að verða gjörsamlega óstöðvandi þegar hann sjóast aðeins betur og hægja tekur á leiknum fyrir hann.

Þessi drengur er gjörsamlega stórkostlegt eintak af körfuboltamanni, sem er með hjálp ágætisþjálfara og hóp af öðrum efnilegum piltum að verða búinn að koma Denver aftur á kortið sem körfuboltabæ.

Þegar þetta er ritað eru nokkrir klukkutímar síðan við sáum Jokic hirða frákast undir körfunni sinni í Houston, drippla boltanum upp allan völlinn, fara framhjá James Harden á miðjum velli með knattraki, keyra á körfuna, setja niður sniðskot með kontakt, fá víti og setja það niður.

Við vitum alveg að strákar eins og Karl-Anthony Towns og Anthony Davis gera eitthvað svona í hverri viku, en þeir eru líka einhyrningar.

Jokic er miðherji í þessum klassíska skilningi orðsins. Hann er stór og þungur. En hann tekur ekkert aukalega fyrir að sýna svona kúnstir og bjóða upp á þrennur leik eftir leik. Og núna erum við að þurrka slef af lyklaboriðinu.

Það er náttúrulega stutt í að þetta Öskubuskuævintýri verði úti hjá Denver (það klárast hjá Utah í sumar) þegar það þarf að byrja að borga þessum guttum sínum uppskrúfaða og glórulausa samninga, en það er full ástæða til að njóta þess að horfa á þetta lið á meðan það fær að vera ungt, efnilegt og vitlaust. Og skemmtilegt.

Þegar hér er komið við sögu, er Dallas tveimur leikjum + á eftir Portland og Denver í töflunni og því eru möguleikar liðsins á að læðast inn í úrslitakeppnina á þessum 12 leikjum sem eftir eru nánast úr sögunni, þó við mælum almennt ekki með því að fólk fari að stunda það að afskrifa Rick Carlisle einmitt þegar kemur að þessu atriði.

Þótt ótrúlegt megi virðast, var Dallas á nokkrum tímapunktum að horfa fram á að eiga vaðandi séns á að komast í úrslitakeppnina þó það væri í rauninni það síðasta sem það ætti að vera að gera núna.

En þessi byrjun og öll þessi meiðsli og lets feis it, þessi skortur á mannskap, er líklega stærri biti en meira að segja Carlisle ræður við.  Dallas-menn þurfa þó ekki að vera í þunglyndi þó þeir missi af úrslitakeppninni, þó það sé leiðinlegt t.d. Dirk vegna.

Þeir fundu sér bakvarðapar á ruslahaugunum og stálu Nerlens Noel - ungum og ljómandi fínum varnarmiðherja fyrir framtíðina (Tyson Chandler mjög svo fátæka mannsins, if you will) - frá Philadelphia fyrir útrunna Júmbósamloku og rifna körfuboltamynd af Doug Overton.

Svona til að klára þessa pælingu er rétt að geta þess að Minnesota og New Orleans voru jú eitthvað að reyna að búa til einhvers konar áhlaup á áttunda sætið, en munu ekki hafa erindi sem erfiði af ólíkum ástæðum.

Minnesota-liðið er ekki tilbúið í neinn svona slag eins og við höfum séð í allan vetur, þó það hafi reyndar sýnt þokkalegustu spretti af og til undanfarið, ekki síst í ljósi þess að það missti Zach LaVine út leik með alvarleg meiðsli.

Fyrir utan einhver hænuskref sem liðið er að taka fram á við fyrir tilstilli hins síöskrandi þjálfara síns, eru það í okkar huga tvö atriði sem hafa gefið Úlfunum smá von að undanförnu.

Annars vegar virðist Minnesota geta hangið í hvaða liði sem er þegar Ricky Rubio er upp á sitt allra besta, sem er ekki oft, en hin ástæðan er ofurmannsleg spilamennska Karl-Anthony Towns að undanförnu.

Towns, rétt eins og Anthony Davis, er að verða kominn í þennan fámenna "Neiiii, hættu nú alveg!"-flokk leikmanna í deildinni sem er svo dásamlegur.

Við vorum búin að bíða svo lengi eftir því að Towns færi að bjóða upp á hrikalegar tölur í einhverju fleiru en bara stigaskorun og það hefur hann sannarlega gert síðan c.a. í kring um Stjörnuleik, þar sem hann hefur líka frákastað eins og andsetinn og það er stysta leiðin fyrir körfuboltamenn til að komast inn að hjartarótum okkar eins og þið vitið.

Vissir þú til dæmis að Towns var að skora 28 stig, hirða 13 fráköst. skjóta 60% utan af velli og 38% úr þristum í síðasta mánuði? Eða að hann er að skila 28/12, 60% skotnýtingu og 41% í þristum í mars? Vissirðu að Minnesota er búið að vinna Clippers, Golden State, Washington og Utah áður en það drullaði á sig og tapaði þremur í röð nú í vikunni? Ekki? Nei, til hvers heldurðu að við séum að skrifa þennan helvítis pistil, eiginlega?

Við sögðum ykkur að Minnesota og New Orleans ættu fátt sameiginlegt og það er rétt, en þau eiga tvennt sameiginlegt.

Hvorugt þeirra er að fara í úrslitakeppnina og hvorugt þeirra á framkvæmdastjóra sem er að fara að sofa góðan nætursvefn næstu árin af áhyggjum yfir stórstjörnunum sínum.

Framtíð Towns hjá Minnesota er óskrifað blað að svo stöddu, en við getum farið að hafa áhyggjur af henni þegar samningamál hans koma upp á borðið og hann fer að spá í það hvort hann langar að búa í borg það sem það eina skemmtilega til að gera er að hanga í Kringlunni og hvort hann langi jafnvel kannski að spila fyrir þjálfara sem gerir ekkert annað en að öskra á hann. Alltaf.

Hvað sem því líður, er framtíðin líklega meira tilhlökkunarefni fyrir stuðningsmenn Úlfana en nokkurn tímann kvíðavaldur.

Það er óhemju erfitt að vera "ungt og vitlaust" félag í NBA deildinni með enga sigurhefð og jafnvel lítinn markað, en geimverur eins og Towns og Davis gera lífið alltaf miklu auðveldara. Þú getur alltaf huggað þið við að þú hefur hann að minnsta kosti. Hann selur treyjur og trekkir að áhorfendur.

Við höfum meiri áhyggjur af framtíðinni fyrir hönd Dílaskarfanna í New Orleans og þessara átján stuðningsmanna sem mæta á leiki liðsins (P.s. - þegar við sáum öll tómu sætin í höllinni í New Orleans í nótt, hugsuðum við strax með okkur hvað þetta blessaða fólk þarna í New Orleans er skaddað í hausnum að mæta ekki á körfuboltaleik sem gengur út á að horfa á 21 árs gamlan Karl-Anthony Towns og 24 ára gamlan Anthony Davis salla yfir 60 stigum hvor á annan! Hallóóó! Hvað þarf að gera til að draga fjósið á ykkur upp úr helvítis sófanum, kræst?!?).

Án þess að fletta til baka í katalógnum, munum við ekki annað en að við höfum verið pínulítið spennt að sjá hvernig DeMarcus Cousins ætti eftir að smella inn í dæmið þarna í New Orleans eftir að hann skipti yfir í síðasta mánuði.

Þessi spenna stafaði af því einu að það er alltaf spennandi að sjá atkvæðamikla körfuboltamenn skipta um lið, ekki af því að við héldum að New Orleans færi allt í einu að vinna 9 af hverjum 10 leikjum sem það spilaði.

Sko, auðvitað er ekki hægt að lesa neitt marktækt út úr þessum skiptum fyrr en liðið er búið að fara í gegn um að minnsta kosti eitt undirbúningstímabil og æfingabúðir með Cousins í sínum röðum og að sama skapi er því allt sem við lesum út úr þessum skiptum þessa leiki sem eftir voru af leiktíðinni ótímabært raus.

En ef þið haldið að þessi formerki verði til þess að við höldum kjafti, skjátlast ykkur illa.

Auðvitað erum við búin að mynda okkur skoðun á þessu fyrir löngu og það var ekki einu sinni erfitt. DeMarcus Cousins blessaður myndaði þessa skoðun fyrir okkur, alveg sjálfur, og við erum löngu búin að segja ykkur hana.

Stutta útgáfan er að DeMarcus Cousins verður aldrei sigurvegari í NBA deildinni ef hann tekur ekki stórkostlega til í hausnum á sér. Hann hefur alla þá líkamsburði og hæfileika til að vera topp fimm körfuboltamaður í heimi næstu sex árin ef hann gæfi því séns, en það eru engar líkur á að hann geri það.

Cousins þarf hjálp ef hann á að ná árangri sem körfuboltamaður. Hann þarf að komast í klúbb með grjótharðan kúltúr þar sem framkvæmdastjórnin er 100% á bak við góðan þjálfara (sem þarf að vera stór karakter með sigurhefð og reynslu) sem er með plan sem farið er eftir og leikmenn sem eru tilbúnir að fara eftir því.

En ekki bara það. Hann þarf líka sálræna hjálp. Hann þarf að hætta að standa í þeirri trú að eina starf dómaranna sem dæma leikina hans sé að flauta hann útaf (margir dómarar nota reyndar hvert einasta rökræna tækifæri sem gefst til að flauta á hann. Það er af því þeir HATA hvað hann sýnir þeim taumlausa vanvirðingu sína fyrir þeim frá fyrstu mínútu í hverjum einasta leik og mótmælir ÖLLU sem flautað er í kring um hann eins og krakki sem uppgötvar að laugardagsnamminu hans var stolið á jólunum) og horfast í augu við þá staðreynd að hann er síðasta manneskjan sem sér það ekki svart á hvítu að hann er að sturta ferlinum ofan í klósettið með þessari hegðun sinni.

Og eins og við sögðum ykkur í einhverjum pistlinum hérna um daginn, eru litlar sem engar líkur á því að Cousins muni breyta hegðun sinni á næstunni og fara að gera hlutina eins og maður.

Og það er ekki bara af því við sjáum ekki fram á að hann eigi eftir að þroskast upp úr þessari vitleysu. Ó, nei. Það er aðallega vegna þess að hann hefur allan sinn körfuboltaferil verið umkringdur kóurum og já-fólki sem lætur hann komast upp með að haga sér eins og helvítis fáviti í stað þess að axla þá ábyrgð sem æskilegt er að hægt sé að leggja á menn sem þiggja milljarða fyrir að vinna vinnuna sína.

Það er ekki eitt, heldur allt. Það er ekki bara út af baneitruðu skapinu í honum og vanþroska sem New Orleans hefur verið nær því að tapa 9 af 10 leikjum síðan hann kom þangað en að vinna 9 af 10. Nei, það er meira.

Og fyrsta atriðið sem allir koma auga á nema hann (virðist vera) er að hann er ekki í nokkru einasta formi til að skila því framlagi sem ætlast er til af honum.

Hugsaðu þér bara: hvernig í ósköpunum ætlarðu til dæmis að fá mann til að spila skipulagðan varnarleik sem ekki aðeins skortir agann til að skila honum, heldur er líka of latur og í of lélegu formi til að gera það!

Munið þið þegar við vorum að hafa áhyggjur af því að Anthony Davis hefði enga hjálp í þessu New Orleans-liði og það sem verra var - að það væri ekki útlit fyrir að hann væri að fá neina hjálp á næstunni af því vinnuafl félagsins á skrifstofunni væri ekki starfi sínu vaxið?

Jæja, þetta er allt saman óbreytt. Þó við efumst um það, getur vel verið að nafn Cousins selji einhverjum einfeldningum nokkra aðgöngumiða á næstu mánuðum, en okkur er til efs að hann hjálpi liðinu sínu mikið á vellinum.

Og trúið okkur þegar við segjum það - við erum 100% einlæg þegar við segjum það - okkur finnst ömurlegt að sjá annan eins hæfileikamann og Cousins eyða megninu af orku sinni í að haga sér eins og fáviti í stað þess að nota hana til að slátra hverjum þeim sem vogar sér að koma inn í vítateiginn hans, hvoru megin vallarins sem það er.

Kannski þýðir þetta raus í okkur að við séum að gera hlut sem engin manneskja ætti strangt til tekið að gera; að dæma aðra manneskju. Þið megið túlka það eins og þið viljið, en þá verðið þið að hafa hugfast að eina ástæðan fyrir því að við erum svona pirruð út í Cousins, er að við vitum að hann er góður strákur inni við beinið.

Við þekkjum manninn ekki neitt, en við vitum um fullt af dæmum þar sem Cousins hefur bæði létt hjá sér pyngjuna og lagt lykkju á leið sína til að hjálpa fólki sem þurfti á því að halda. Þið vitið, þarna úti í raunverulega lífinu, þar sem körfubolti skiptir litlu máli.

Svona stöff skiptir raunverulegu máli í okkar bókum og þetta segir okkur að það er meira varið í Cousins en hann sýnir okkur þegar hann er grenjandi og fnæsandi á dómarana og látandi henda sér út af körfuboltaleikjum (hann var 28 sekúndur að stara fyrsta dómarann niður í leiknum við Minnesota núna í nótt - við tókum tímann á því til gamans).

Allt þetta þýðir að það eru innan við 1% líkur á því að við sjáum Cousins fara fyrir sigursælu liði á ferli hans í NBA deildinni, en við verðum víst bara að sætta okkur við það. Það er víst orðið nóg af efnilegum ungum stórum mönnum þarna úti. Mönnum sem heppilegra væri að fjárfesta í körfuboltalega en aumingja DeMarcus Cousins.

Það er náttúrulega dónalegt af okkur að vera að slútta þessum pistli með eintómu niðurrifi og neikvæðni, en það eru bara ekki alltaf jólin í NBA frekar en annars staðar.

Okkur dettur hinsvegar ekki í hug að skilja við ykkur á svona þunglyndislegum nótum og því viljum við endilega nýta þetta tækifæri til að hvetja fólk til að mæta á leikina í úrslitakeppnunum hér heima á næstunni.

Úrslitakeppnin hér heima hefur farið ljómandi skemmtilega af stað og fer nú að komast endanlega á fullt gas. Og þið vitið hvað það þýðir.

Það þýðir auðvitað að það er orðið virkilega stutt í að úrslitakeppnin í NBA fari af stað líka, sem táknar auðvitað endanlega komu vorsins og flöggun fyrir sigri mannsandans, kærleika og fegurðar lífsins.

Að lokum minnum við ykkur á frjálsu framlögin sem aflögufært fólk getur lagt fram til að aðstoða við rekstur NBA Ísland með því að nota tengilinn á hægri spássíu síðunnar sem virkjaður er með því að smella á takkann "þitt framlag" sem er eins og þessi hér til hægri og gengur frá framlögum í gegn um paypal-þjónustuna.

Við vonum að fjársterkari aðilar úr röðum lesenda finni það hjá sér að styðja við bakið á Íslandinu sínu, sem enn er laust við allar auglýsingar (af því það kann enginn á ritstjórninni að selja auglýsingar) og því eins nálægt því að vera ókeypis afþreyingarvefur og hugsast getur.

Lifið heil, elskurnar.