Tuesday, May 9, 2017

Er Golden State göldrótt eða heppnasta lið heims?


Það er að eiga sér stað þróun í úrslitakeppninni núna sem fær okkur til að gretta okkur. Alveg eins og á þarsíðustu leiktíð þegar Golden State vann meistaratitilinn, eru andstæðingar Warriors í úrslitakeppninni núna hægt og bítandi að missa lykilleikmenn sína á meiðslalista.

Þetta er farið að minna okkur svo mikið á 2015 að það er eiginlega hætt að vera fyndið. Fyrir það fyrsta þarf lið eins og Golden State auðvitað alls ekki hjálp, því það er eins hlaðið snillingum og nokkurt annað körfuboltalið í sögunni og í öðru lagi HÖTUM við meiðsli, sem eru búinn að fara langt með að eyðileggja nokkur af síðustu tímabilum.

Hvað sem öðru líður er áhugavert að rifja upp hvað gerðist hjá Warriors fyrir tveimur árum og skoða nánar hvort það geti raunverulega verið að hlutirnir séu að renna í svipaðan farveg

Þau ykkar sem hafið fylgt okkur eftir hér á síðunni munið vel eftir Fílnum í Herberginu þegar kom að meistaratitlinum sem Warriors-liðið vann fyrir tveimur árum. 

Flestir samþykktu að þetta Golden State lið hefði ekki aðeins verið ljómandi skemmtilegt, heldur líka ógnarsterkt, enda vann það haug af leikjum (67 ef við eigum að vera nákvæm, rétt eins og liðið þeirra í ár) og var jafnbesta liðið í deildinni allan veturinn.

En þá eigum við eftir að tala um þennan fíl, því hann var helvíti stór. Auðvitað munið þið hvað hann stóð fyrir. Eini gallinn við þetta Warriors-lið og titilinn sem það vann, var að það fékk allt of mikla hjálp við það. Hjálp, sem það þurfti engan veginn á að halda eins og þið munið. Hjálp í formi heppni og stundum í formi óheppni og ógæfu sem hellist yfir andstæðinga Warriors..

Þau ykkar sem munið vel eftir þessu eruð örugglega orðinn hrikalega leið á þessari orðræðu, því hún lá eins og svart ský yfir Warriors-liðinu lengi á eftir og eins og þið munið létu einhverjir hausar hafa það eftir sér um sumarið og haustið á eftir að Golden State menn hefðu verið "heppnir" að vinna titilinn. Þessi ummæli voru svo teygð og toguð og misskilin í alla kanta, en við vissum alveg hvað menn voru að meina þegar þeir töluðu um þessa heppni.

Golden State 2015 var fyrst og fremst heppið af því það hélt sæmilegri heilsu á leiktíðinni, enda fékk það svo að kynnast því strax á leiktíðinni á eftir hvað gerist þegar menn eru ekki heilir í úrslitakeppninni  - og þá sérstaklega í lokaúrslitunum þegar þeir mæta liði eða liðum sem eru jafngóð eða betri.

En það var sannarlega ekkert svoleiðis uppi á teningnum árið 2015 og fyrir þau ykkar sem muna ekki eftir þessu eða tóku hreinlega ekki eftir þessu, skulum við hlaupa yfir þetta í hvelli (immit).

Ástæðan fyrir því að menn töluðu um heppni í Warriors-liðinu var ekki að það hefði verið að hitta þriggja stiga skotum frá miðju og að andstæðingar þess hefðu verið að klikka á sniðskotum, heldur áttu menn þá við að á meðan Golden State hélt allt að því fullkominni heilsu í úrslitakeppninni - voru allir andstæðingar liðsns á leiðinni að titlinum vængbrotnir að einhverju leyti vegna meiðsla.

Ef við tökum þetta eftir röð, byrjaði Golden State á því að mæta New Orleans í fyrstu umferðinni og þó Warriors-menn hefðu unnið þá seríu 4-0, áttu Dílaskarfarnir ágætis spretti í rimmunni og náðu að gera eitthvað af þessum leikjum áhugaverða. En það sem gerði útslagið hjá New Orleans í seríunni var að leikstjórnandinn og (líklega) næstbesti leikmaður liðsins var á annari löppinni allt einvígið og missti að okkur minnir af amk einum af þessum fjórum leikjum.

Ekki minnkaði mótspyrnan í annari umferðinni þegar Golden State mætti hnefaleikurunum í Memphis, því eins og frægt er orðið, komst Memphis yfir 2-1 í seríunni áður en Steve Kerr og félagar í þjálfarateymi Warriors gerðu breytingar sem hafa síðan verið fastir liðir í spilamennsku liðsins. 

Þessi sería er mjög merkileg fyrir þær sakir að þetta var ein af rimmunum þremur* sem að okkar mati stuðlaði að því að Golden State hætti að vera efnilegt lið sem vann fullt af leikjum í deildarkeppninni en fékk svo skrekk í úrslitakeppninni. Leikmenn Warriors urðu fullorðnir í þessari seríu og öðluðust grunninn að því sjálfstrausti sem þeir hafa í dag þegar þeir náðu að snúa við blaðinu og slátra Memphis eftir að hafa verið undir 2-1 í einvíginu og auðsjáanlega nokkuð slegnir í hávaðanum í Memphis. 

Golden State á sem sagt skilið að fá klapp á bakið fyrir þennan viðsnúning sinn á sínum tíma, en þar erum við ekki komin að fílnum í herberginu í þessari seríu. Það var nefnilega ekki bara góður leikur Warriors sem tryggði þeim sigur í einvíginu, því nákvæmlega eins og New Orleans í seríunni á undan, var Memhis með vængbrotið lið af því leikstjórnandi liðsins og næstbesti leikmaður var meiddur og átti alls ekki góða seríu. 


Þið þurfið ekki að horfa lengra en til spilamennsku Mike Conley í 1. umferðinni í ár til að sjá hvað hann er gríðarlega þýðingarmikill liði sínu og bara drullu góður í körfubolta! Aftur fóru Warriors áfram í næstu umferð með því að vinna lið með meiddan leikstjórnanda, að þessu sinni 4-2.

Næsta lið á dagskrá hjá Warriors var Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar en þetta Houston-lið var þó að minnsta kosti ekki með leikstjórnandann sinn og besta varnarmann í meiðslum eins og fyrstu tveir andstæðingar, andskotinn hafi það....?

Hvað heldur þú? Auðvitað vantaði leikstjórnandann í Houston-liðið! Þriðju seríuna í röð. Þessi leikstjórnandi sem vantaði hjá Rockets var reyndar aðeins öðruvísi týpa en Conley og Holiday og var til að mynda saknað frekar lítið í sóknarleiknum en hann skildi eftir sig risastórt skarð í varnarleiknum. 

Það hefði til dæmis augljóslega komið í hlut Patrick Beverley að dekka Stephen Curry megnið af seríunni, en í staðinn fyrir að hafa hann, var það áttatíu og fjögurra ára gamall Jason Terry sem sá um að koma upp með boltann fyrir Houston þegar James Harden nennti því ekki.


Við getum augljóslega ekki kennt fjarveru Beverley um það að Houston skíttapaði seríunni 4-1 og leit frekar illa út á meðan. Golden State var búið að finna fjölina sína, komið í bullandi takt og engin meiðsli til að tala um ennþá, fyrir utan smá brak í hálsinum á Stephen Curry eftir að hann lenti í óvæntri flugferð í Houston-seríunni.

Það var því ljóst að Warriors-menn voru komnir í lokaúrslit í fyrsta skipti í áratugi, en andskotinn hafi það, ekki vantaði þó leikstjórnandann í þetta Cleveland lið líka? 

Þú mátt giska...

Cleveland mætti undirmannað í lokaúrslitaeinvígið af því hálfvitinn Kelly Olynyk mölvaði handlegginn á Kevin Love skömmu áður og eins og þú varst eflaust búin(n) að átta þig á, hrundi Kyrie Irving í gólfið með ónýtt hné undir lok fyrsta leiksins. 

LeBron James tókst einhvern veginn að koma liðinu sínu yfir í einvíginu 2-1, en þá gerði Steve Kerr síðustu stóru breytinguna á liðinu sem lagði grunninn að sigri þess í rimmunni og allir hafa verið skíthræddir við þetta lið allar götur síðan.

Þið verðið nú að gefa okkur það, að við vorum ekki lengi að útskýra þetta frekar en við erum vön. Einmitt. En hérna er þetta samt, svona á myndrænan hátt, ef svo má segja:

Ókei, þá erum við búin að tækla fílinn í herberginu árið 2015, en við vorum löngu búin að kryfja hann (lifandi) með handþeytara. Það sem er að bögga okkur núna, er að það er aftur kominn fíll í helvítis herbergið og þó fjölmiðlar (aðrir en Utah) séu ekki búnir að fatta það. 

Þessi 2017 fíll er nefnilega mjög líkur hinu kvikindinu og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, erum við einum meiðslum frá því að kalla þetta bölvun.

Hverjar haldið þið í alvöru að séu líkurnar á því að lið sem vinnur meistaratitilinn mæti fjórum andstæðingum í röð sem missa byrjunarliðsleikstjórnandann sinn í meiðsli? Um það bil engar, það er ekki lengi verið að reikna það.

Golden State sem sagt flýgur í gegn um úrslitakeppnina 2015 og vinnur titilinn á tiltölulega sannfærandi hátt, en tapar svo í úrslitaeinvíginu árið eftir, að hluta til vegna þess að í þetta skiptið voru það leikmenn Warriors sem voru meiddir en ekki leikstjórnendur andstæðinganna.

En núna erum við komin með það sterklega á tilfinninguna að þetta sé allt saman að þokast í sömu átt og fyrir tveimur árum. Við ákváðum að prófa að föndra þessa pælingu saman á myndrænan hátt svo fólk geti skoðað þetta og vonandi fattað þetta án þess að þurfa að lesa þessar sextán þúsund blaðsíður sem þessi pistill er.

Skoðum þetta bara ofan í kjölinn. Andstæðingar Warriors í fyrstu umferðinni þetta árið voru Portland og eins og eftir formúlunni, gat nýjasti liðsmaður Portland ekki tekið þátt í einvíginu nema í örfáar mínútur vegna meiðsla. 

Jusuf Nurkic var ekki stærsta breytan í þessu einvígi og við ætlum ekki að segja að fjarvera hans hafi vegið þyngra en ef Portland hefði t.d. verið án Damian Lillard, enda skiptir það svo sem ekki máli. Portland var ekki með fullskipað lið í einvíginu. Golden State hefði sópað þessu alveg sama hvort einn maður, sjö menn eða ennginn hefði verið meiddur hjá Portland.

Næsti!



Já, næsti andstæðingur Warriors var svo Utah Jazz og Curry og félagar voru ekki að drolla við að senda þá í sumarfrí frekar en Portland, en þarna eru þeir aftur farnir að halda í hefðina, því Utah var án leikstjórnanda síns í þremur leikjum af fjórum vegna meiðsla og tveir aðrir lykilmenn Jazz voru tæknilega á annari löppinni (Derrick Favors er búinn að haltra um gólfið alla úrslitakeppnina og Rudy Gobert þarf að hlífa hnénu á sér þegar hann er að setja hindranir og er því ekki að skila sínu venjulega framlagi).

Á hvaða tímapunkti förum við bara að kalla þetta það sem það er, en ekki eitthvað krúttlegt og eða asnalegt eins og að tala um fílinn í herberginu. Svarti galdur, kukl og bölvanir eru sannarlega ekki eitthvað sem við myndum kalla krúttlegt. Og ef þið trúið þessu ekki ennþá, getið þið bara skoðað dæmið lengra fram í tímann.

Golden State mun mæta sigurvegaranum í einvígi San Antonio og Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar og við þurfum ekkert að bíða eftir úrslitum í Texasslagnum til að meta framhaldið þar. Þið vitið að Tony Parker er leikstjórnandi San Antonio, er það ekki? Og þið vitið að hann meiddist í vikunni og er ekki að fara að spila körfubolta  í meira en hálft ár (kannski heilt). 

Houston svaraði meiðslum Frakkans með því að missa algjöran lykilmann í sínu liði í meiðsli. Sá heitir Nene og (ekki um jólin!) er frá Brasilíu - og leiktíðin er líka búin hjá honum, þó hún yrði framlengd út ágúst. 

Ætli við verðum ekki að segja eins og er að við séum hissa að það skuli hafa verið Nene sem meiddist hjá Houston en ekki annar hvor leikstjórnandinn (Beverley, Harden) en gleymið ekki að það er enn tími til stefnu hjá Warriors að kukla einn eða tvo góða leikmenn frá Houston í vel útilátin meiðsli áður en serían hefst - ef það verður Houston sem fer áfram úr Texas-stríðinu, það er að segja.

Hér fyrir neðan er svo 2017-útgáfan af brakketinu okkar sem sýnir skörðin sem höggvin hafa verið í andstæðinga Warriors - og meira að segja í nokkur af hinum liðunum líka, svona eins og til vara! Til dæmis Blake Griffin hjá Clippers.

Og þá er bara eitt lið eftir og það er Cleveland. Eins og staðan er í dag hljóta að vera yfir 90% líkur á því að það verði Cleveland sem verður fulltrúi austursins í lokaúrslitunum og þó líkurnar séu kannski ekki alveg eins góðar hjá þeim í vestrinu, þarf eitthvað mjög furðulegt að gerast ef Golden State á ekki að fara í úrslitaeinvígið.

Og ef við gefum okkur að það verði Warriors og Cavaliers sem fara í úrslitin þriðja árið í röð, er bara einni spurningu ósvarað áður en lokarimman hefst - og hún er ísköld:

Hvaða lykilleikmaður Cleveland mun meiðast áður en lokaúrslitin hefjast?